Ísland „ekki uppgötvað leyndarmálið.“—viðtal við Eið Smára í The Independent

Fréttir

Í dag (7. júní) birti breski fréttamiðillinn The Independent viðtal blaðamannsins Samuel Lovett við fyrrum liðsmann íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, Eið Smára Guðjohnsen. 

Ýmislegt áhugavert kemur fram í viðtalinu og ber þar helst að nefna lýsingu Eiðs Smára á núverandi þjálfara Manchester City, Pep Guardiola („hann er innhverfur“); efasemdir hans í garð markaskorarans Harry Kane („hann hefur komið mér á óvart“); og sú fullyrðing að stemningin í fyrrum Reebok-höllinni (Bolton) hafi oft og tíðum jafnast á við stemninguna á Nucamp (Barcelona). Þá segir Eiður, í tengslum við velgengni íslenska landsliðsins í fótbolta, að liðið hafi ekki uppgötvað neitt sérstakt leyndarmál, öllu heldur komist á snoðir um eitthvað sem virkar vel fyrir liðið.

Í lok greinarinnar segir blaðamaður að Eiður Smári sé einn fárra leikmanna sem hefur spilað bæði undir leiðsögn José Mourinho og Pep Guardiola. Aðspurður út í helsta muninn á milli þessara tveggja þjálfara lét Eiður eftirfarandi ummæli falla:

„Mourinho er aðeins beinskeyttari, að mínu mati. Þeir eru báðir í svipuðum klassa. Það er bara spurning hvorn þér líkar betur við. Stærsti munurinn er karakterinn. Mourinho er stærri persónuleiki, stærri karakter en Guardiola. Guardiola er hljóðláta týpan, hugsuður, innhverfur.“

– Eiður Smári Guðjohnsen

Áhugasamir geta lesið viðtalið í heild sinni með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.

Nánar: https://www.independent.co.uk/...