9 óvæntar staðreyndir um Tupac

Áhugavert

Þegar viðfangsefnið Besti rappari allra tíma berst í tal koma yfirleittt sömu nöfnin upp á teninginn: Biggie Smalls, Jay-Z, Nas, Eminem og Tupac—en hinn síðastnefndi þykir, að mati margra, eiga sterkt tilkall til kórónunnar ekki aðeins vegna hæfileika sinna á sviði rapps heldur einnig vegna þeirrar manngerðar sem hann var: Tupac var baráttumaður út í fingurgóma sem lét málefni þeirra sem minna máttu sín sig varða, og þá sérstaklega málefni þeldökkra í Bandaríkjunum. 

Til þess að heiðra minningu þessa merka rappara og hugsjónamanns tók SKE saman 9 staðreyndir sem eru þess eðlis að þær koma, hugsanlega, einhverjum á óvart.

1. Tupac byrjaði sem sviðsdansari fyrir hljómsveitina The Digital Underground. 

Áður en Tupac Shakur kom fram á sjónarsviðið undir eigin formerkjum var hann dansari fyrir hljómsveitina Digital Underground. Í raun má segja að Tupac hafi varið bróðurpart ferils síns hjá TNT Records (útgáfufyrirtækisins sem gaf út tónlist Digital Underground), eða fjögur ár. Til samanburðar var hann aðeins með plötusamning hjá Death Row Records í níu mánuði, áður en hann var skotinn til bana árið 1996. Fáir hafa lýst muninum á Tupac og Biggie jafn vel og forsprakki fyrrnefndar hljómsveitar, Shock G, í myndbrotinu hér að neðan.

2. Upprunalega kallaði Tupac sig MC New York

Eins og frægt er orðið átti Tupac í illdeilum við starfsbróðir sinn Biggie Smalls undir lok ferils síns; svo mikið var gert úr deilum þeirra að rappaðdáendur skipuðu sér í tvær fylkingar: annað hvort voru menn vestur- eða austurstrandamegin. Tupac verður seint sakaður um annað en hafa haldið heiðri Vestur-strandar Bandaríkjanna á lofti en þess má þó geta að Tupac var fæddur í austur-Harlem í New York borg og bjó einnig í Baltimore, þar sem hann byrjaði að rappa—en þar gekk hann undir nafninu MC New York.

3. Tupac og Jada Pinkett voru miklir vinir

Ljóðabókin The Rose that Grew from the Concrete eftir Tupac kom út þremur árum eftir andlát hans, árið 1999. Bókin geymir ljóðið The Tears in Cupid's Eyes (Tárin í augum Kúpid) sem er tileinkað leikkonunni Jada Pinkett Smith, en þau voru miklir vinir. 

The day u chose 2 leave me
it rained constantly outside
in truth I swore the rain 2 be
The tears in Cupid's eyes

Hér fyrir neðan má sjá brot af viðtali Queen Latifah við Jada Pinkett en þar segir hin síðarnefnda frá því hvernig Tupac reyndi að kenna henni  að rappa. 

4. Tupac og Madonna voru eitt sinn kærustupar

Í bókinni Madonna: Like an Icon eftir rithöfundinn Lucy O'Brien (sem kom út árið 2007) kemur ýmislegt fram; þar á meðal að Madonna og Tupac áttu í ástarsambandi ári áður en rapparinn dó. Sambandið varði þó ekki lengi þar sem Tupac hætti með söngkonunni í kjölfar gagnrýni af hendi vinkvenna sinna. 

Nánar: http://www.nydailynews.com/ent...

„Þau (Tupac og Madonna) voru saman í einhvern tíma en vinkonur Tupac gagnrýndu hann fyrir það að slá sér upp með hvítri konu—svo að hann hætti með henni.“

– Lucy O'Brien

5. Tupac var mikill aðdáandi William Shakespeare 

Á sínum yngri árum var Tupac nemandi í sviðslistaskólanum Baltimore School of Performing Arts þar sem hann kynntist verkum William Shakespeare fyrst. Minntist hann oft á áhrif heimsbókmenntanna á tónlistarsköpun sína, þar á meðal í viðtali við blaðamann Los Angeles Times þar sem hann sagðist tengja sterkt við leikrit Shakespeare: 

„Ég elska Shakespeare. Hann ritaði svo óheflaðar sögur. Sjáðu til dæmis leikritið Rómeó og Júlía. Þetta er alvöru gettósaga. Þú ert með þennan gaur, Rómeó, sem er meðlimur í Bloods-klíkunni, og hann verður ástfanginn af dömu, Júlíu, sem er í liði með fjandmennum Bloods-klíkunnar, Crips, svo að þau fá alla upp á móti sér. Þau þurfa að strjúka á brott en deyja bæði tilgangslausum dauða.“ 

– Tupac

Nánar: http://www.latimes.com/local/l...

6. Eftir að lík Tupac var brennt blönduðu meðlimir Outlawz ösku rapparans út í maríúana og reyktu hana.

Í grein sem birtist 13. september 2006 í ástralska blaðinu The Sydney Morning Herald kemur fram að meðlimir hljómsveitarinnar The Outlawz—sem Tupac stofnaði árið 1995 eftir að hann losnaði úr fangelsi—hafi blandað ösku rapparans út í maríúana og reykt hana, honum til heiðurs (á Wikipedia-síðu Tupac kemur hins vegar fram að E.D.I. Mean, meðlimur Outlawz, hafi viðurkennt árið 2014 að óvíst sé hvort að askan hafi verið leifar Tupac). 

Nánar: https://www.smh.com.au/news/mu...

7. Árið 2010 var lagið "Dear Mama" þriðja rapplagið til þess að vera varðveitt af bókasafni bandaríska þjóðþingsins ("National Recording Registry of the Library of Congress"). 

Á hverju ári velur bókasafn bandaríska þjóðþingsins 25 lög eða hljómplötur til þess að varðveita í hljóðritunarskrá ríkisins ("National Recording Registry"). Frá því að skráin var sett á fót, árið 2002, hafa aðeins sex lög/plötur ratað þar inn, og þar á meðal lagið Dear Mama eftir Tupac. Hin rapplögin eða plötunnar sem eru að finna á hljóðritunarskránni eru lagið The Message eftir Grandmaster Flash, platan Fear of a Black Planet eftir Public Enemy, platan 3 Feet High & Rising eftir De La Soul, lagið Rapper's Delight eftir Sugar Hill Gang og platan The Miseducation of Lauryn Hill eftir Lauryn Hill. 

Nánar: https://www.thoughtco.com/hip-...

8. Tupac skaut tvo óeinkennisklædda lögreglumenn

Árið 1993 var Tupac handtekinn fyrir að skjóta tvo óeinkennisklædda lögreglumenn í Atlanta í Bandaríkjunum. Málið var fellt niður í ljósi þess að lögreglumennirnir voru ölvaðir og með stolinn skotvopn í fórum sínum. 

Nánar: http://thefreethoughtproject.c...

9. Sem ungur nemandi gekk hann til liðs við kommúnistahreyfinguna í Baltimore

Undir lok níunda áratugsins gekk Tupac til liðs við Bandalag ungra kommúnista í Baltimore ("The Young Communist League") en á þeim tíma átti hann í ástarsambandi við Mary Baldridge, dóttur Jim Baldridge, formanns kommúnistaflokksins í Maryland. Pólitík var Tupac mjög hugleikin, líkt og lag hans Changes ber vitni um.

http://keywiki.org/Tupac_Shaku...