Stravinsky, Eliot og Picasso—Arnar Úlfur stælir Juvenile í nýju lagi: "Hasarlífsstíll"

Áhugavert

Á meðan hann lifði átti rússneska tónskáldið Igor Stravinsky að hafa látið eftirfarandi ummæli falla: „Gott tónskáld fær ekki lánað—hann stelur.*“ 

Ólíklegt verður þó að teljast að Stravinsky sé höfundur setningarinnar—að minnsta kosti upprunalegi höfundur setningarinnar—því að öllum líkindum á hún rætur að rekja til bandaríska ljóðskáldsins T.S. Eliot, sem ritaði eftirfarandi orð árið 1921, og þá í ritgerð um enska leikskáldið Philip Massinger:

„Það eru aðeins óþroskuð ljóðskáld sem herma eftir; þroskuð skáld stela; slæm skáld afskræma það sem þau fá að láni, en góð skáld betrumbæta ...“

Nánar: https://nancyprager.wordpress....

Hvað sem höfundi hugmyndarinnar líður gildir sama reglan svo sannarlega um rapptónlist en í gegnum árin hafa margir góðir rapparar stolið línum, eða flæði (flow á ensku útleggst yfirleitt sem flæði á íslensku en merkir hrynjandi eða hljóðfall), frá öðrum röppurum og gert það, þar með, að sínu eigin. 

Þá fékk kanadíski rapparinn Drake til dæmis flæði rapparans M-1 (úr hljómsveitinni Dead Prez) lánað í lagi sínu Over (umræddur kafli hefst á ca. 02:08 í laginu Over en flæðið sem Drake stælir hefst ca. 00:33 í laginu Hip Hop eftir Dead Prez). 

Rapparinn A$AP Rocky hermir einnig eftir stíl Bone Thugs N Harmony í laginu Palace (ca. 01:30) en Bone Thugs stíllinn svokallaður er fremur sérkennilegur. Og svona mætti lengi halda áfram að telja.

En fáir rapparar hafa smíðað jafn sérkennilegt og, að einhverju leyti, jafn grípandi flæði og rapparinn Juvenile í laginu Back That Azz Up sem kom út árið 1999. Á þeim tæpum 20 árum sem hafa liðið frá útgáfu lagsins hafa fjölmargir rapparar leikið stíl hans eftir en sjálfur Jay-Z fékk stílinn lánaðan í laginu Part II (On the Run) sem hann samdi í samstarfi við Beyoncé (ca. 02:23). 2 Chainz gerði slíkt hið sama í laginu Used To (ca. 00:33). 

Sennilega er Arnar Freyr Frostason (Úlfur Úlfur) þó fyrsti íslenski rapparinn til þess að stæla Juvenile en í laginu Hasarlífsstíll, sem er að finna á samnefndri plötu sem kom út fyrir stuttu, gerir rapparinn það listavel (ca. 01:20).


Platan Hasarlífsstíll geymir átta lög og skartar góðum gestum á borð við Helga Sæmundi, Sölku Sól og Kött Grá Pje. 


*(Spænska listamanninum Pablo Picasso hefur einnig verið eignað sambærileg orð: „Sæmilegir listamenn fá að láni, stórkostlegir listamenn stela.“)