Bandarískur „rokkguð“ heillar Katy Perry með lagi eftir Kaleo í American Idol

Fréttir

16. sería sjónvarpsþáttarins American Idol fer nú fram þessa dagana á bandarísku sjónvarpsstöðinni ABC (er þetta í fyrsta skiptið sem þátturinn er sýndur á fyrrnefndri sjónvarpsstöð en lengst af var þátturinn sýndur á Fox). Dómarar keppninnar—að þessu sinni—eru þau Katy Perry, Lionel Richie og Luke Bryan.

Athygli vekur að íslenska hljómsveitin Kaleo nýtur ákveðinna vinsælda meðal keppanda en í síðustu tveim þáttum hafa keppendur flutt lög eftir sveitina.

Síðastliðinn 2. apríl flutti rokkarinn Cade Foehner lagið No Good eftir Kaleo (sjá hér að neðan). Eins og sjá má á myndbandinu var tónlistarkonan Katy Perry sérdeilis hrifin af Foehner og af viðbrögðum dómaranna að dæma þótti frammistaða Foehner skara fram úr. Fréttavefurinn Yahoo News lýsir Foehner sem „rokkguði“ og eru margir á því að hann sé sigurstranglegur í ár.

Nánar: https://finance.yahoo.com/news...

Þá flutti söngvarinn Trevor McBane einnig lag eftir íslensku hljómsveitina í síðasta þætti (sem fór fram í gær, sunnudaginn 8. apríl). Trevor McBane söng lagið Way Down We Go og uppskar mikið lof fyrir.

Þess má geta að Kaleo er á tónleikaferðalagi um Suður-Ameríku um þessar mundir og kom fram á tónlistarhátíðini Lollapalooza Brasil fyrir stuttu. 

Nánar: http://www.visir.is/g/20181801...

Brasilíski fréttavefurinn Globo fjallaði um tónleika Kaleo á hátíðinni í lok mars og eftir því sem við komumst næst var greinahöfundur hrifinn af hljómsveitinni en fannst hún þó hálf meinlaus. 

Nánar: https://g1.globo.com/pop-arte/...

Hér fyrir neðan má einnig sjá söngvarann Noah Mac flytja lagið Way Down We Go eftir Kaleo í bandaríska sjónvarpsþættinum The Voice í fyrra.