​„Biggie eldist betur en Tupac.“​—SKE kíkir á rúntinn með Valdimar (myndband)

Í bílnum

Nýverið fór SKE á rúntinn með tónlistarmanninum Valdimar Guðmundssyni en rúnturinn var liður í myndbandsseríunni Í bílnum (sjá hér fyrir ofan) þar sem SKE ræðir við listakonur og menn á ferðinni um götur Reykjavíkur.

Tilefni rúntsins—ef hægt er að tala um slíkt—er væntanleg útgáfa nýrrar plötu sem hljómsveitin Valdimar hyggst gefa út í haust:

„Við stefnum á útgáfu í haust. Við erum að reyna að klára allt saman á næstu tveim, þrem vikum. Við eigum nokkra texta eftir og einhverjar söngupptökur. Svo eigum við líka eftir að klára plötuumslagið. Þannig að við stefnum á útgáfu í september, sem er frekar bjartsýnt—en við eiginlega verðum að gera það vegna þess að við erum búnir að taka frá Háskólabíó í september. Þann 22. september er búið að ákveða það að við ætlum að halda útgáfutónleika þannig að við verðum bara að klára þetta fyrir þann tíma.“

– Valdimar Guðmundsson

Líkt og fram kemur í viðtalinu er Valdimar mikill aðdáandi bandaríska rapparans Biggie Smalls heitins og þá sérstaklega fyrstu plötu rapparans: „Mér finnst tónlistin hans Biggie eldast miklu betur (en tónlistin hans Tupac). Ég nenni miklu frekar að hlusta á Ready To Die heldur en All Eyez On Me með Tupac ... ég veit ekki hvort að maður geti nefnt betri rappplötu en Ready To Die.

Hér fyrir neðan eru svo lögin Of seint og Blokkin sem Valdimar gaf út í ár en lögin verða að öllum líkindum að finna á væntanlegri plötu.