„Hlakka mikið til að spila á Secret Solstice“—Birgir gefur út lagið "Home"

Viðtöl

SKE: Í bókinni Gróður jarðar eftir norska Nóbelskáldið Knut Hamsun segir höfundur frá sveitamanninum Ísak sem fer upp á heiði og brýtur sér land til ræktunar: „Um haustið hafði hann smíðað sér hús, torfkofa, áreiðanlegan og traustan. Hér var hans heimili; hann gat gengið inn í kofann og lokað hurðinni, og dvalið þar; gat staðið fyrir utan kofann, á dyraþrepinu, eigandi þessa húss, ef einhver skyldi ganga framhjá.“ Einhverra hluta vegna dúkkuðu þessar línur upp í huga undirritaðs við hlustun lagsins "Home" sem tónlistarmaðurinn Birgir gaf út í vikunni (sjá hér að ofan)—þó svo að það sé engin sérstök tenging þar á milli; í laginu er það ástin sem skapar heimilið en ekki byggingin sjálf. Hvað sem þeim hugleiðingum líður þá heyrði SKE í Birgi í gær og forvitnaðist um lagið, framtíðina og ýmislegt annað sem tengist hugtakinu „Heimili.“ 


Viðtal: RTH
Viðmælandi: Birgir Steinn Stefánsson
Ljósmynd: Anna Maggý

SKE: Hvað geturðu sagt okkur um tilurð lagsins og innblástur? 

Birgir: Beinagrindin að laginu varð í raun til á stuttum tíma. Þetta byrjaði allt með trommu/perc lúppu sem ég samdi einhvern tímann þegar mér leiddist heima. Síðan fannst mér lúppan svo grípandi að við hentum hljómum ofan á lúppuna og úr varð lagið Home (svona næstum því).

SKE: Er komin einhver dagsetning á útgáfu plötunnar? 

Birgir: Ekki ennþá, en við erum duglegir að vinna í nýja efninu og höldum okkar striki.

SKE: Er myndband á leiðinni eða eru tónleikar á dagskrá? 

Birgir: Eins og staðan er núna þá eru ýmsar pælingar í gangi hvað varðar myndband, það er spurning fyrir hvaða lag hins vegar—það verður að koma í ljós. Ég ætla að halda áfram að vinna í hljóðverinu og svo eru nokkrir tónleikar inni í myndinni í sumar, þar á meðal á Secret Solstice. Ég hlakka mikið til að koma fram þar.

SKE: Ef þú fengir 1 milljón ISK en yrðir að eyða peningum fyrir miðnætti í kvöld—hvernig myndirðu verja peningnum?

Birgir: Ég myndi að öllum líkindum fara í eitthvað grillað "one-way ticket" dæmi til Balí eða eitthvað. Koma svo skítblankur en góður til baka eftir x margar vikur, haha!

SKE: Það lag sem hefur haft hvað mestu áhrif á þig?

Birgir: Ómögulegt að svara þessari. Ég ætla samt að segja eitthvað þó að ég breyti örugglega um skoðun eftir korter. Akkúrat núna hugsa ég Fix You með Coldplay.

SKE: Arsenal: "Thoughts?" 

Birgir: Ég þarf eiginlega að setja á mig svona Twitter orðafjölda limit þegar það kemur að þessu umræðuefni. Ég ætla að hafa þetta stutt og segja: „Wenger out.“

SKE: Að lokum: Homeblest eða Google Home? 

Birgir: Homeblest 

SKE: Hvað gerir hús að heimili? 

Birgir: Góður flatskjár í stofunni og fjölskyldan í sófanum. 

SKE: Uppáhalds heimilistæki? 

Birgir: Ísskápurinn (þegar ég finn eitthvað að viti).

SKE: Uppáhalds kvikmynd með orðinu Home í tiltinum? 

Birgir: Home Alone. 

SKE: Uppáhalds lag með orðinu Home (eða House) í titlinum? 

Birgir: Home með Phillip Phillips. 

SKE: Sá staður sem þú gætir ekki ímyndað þér að kalla "HOME"? 

Birgir: Annað hvort White Heart Lane eða kamrarnir á Þjóðhátíð, voða svipaðir staðir svo sem. 

(SKE þakkar Birgi kærlega fyrir spjallið.)