Bróðir BIG gefur út fyrsta lagið af væntanlegri plötu: „Hrátt Hljóð“

Íslenskt

Síðastliðinn 4. júlí gaf rapparinn Bróðir BIG út lagið Hrátt Hljóð (sjá hér fyrir ofan) en um ræðir fyrsta lagið af samnefndri breiðskífu sem mun rata á Spotify sem og á allar helstu streymisveitur á komandi vikum.

Rapparinn hyggst fagna útgáfu plötunnar næstkomandi 27. júlí á Prikinu þar sem hann mun stíga á svið ásamt öllum gestaröppurum plötunnar – en óhætt er að segja að fjölbreytt flóra rappara grípi í hljóðnemann: Gísli Pálmi, BófaTófan (Geimfarar), Seppi (Ha Why? / Afkvæmi Guðanna / Rottweiler), MC Bjór, Haukur H (Þriðja Hæðin), Þeytibrandur og Morgunroði. Áhugasamir geta verslað sér eintak af plötunni á bæði CD og Vinyl í útgáfuteitinu á Prikinu. 

Þess má einnig geta að ellefu pródúserar komu að taktsmíði á plötunni: Gráni, Morgunroði, BRR, Earmax, Cottonmouf, Jayville, Hákon Don, TaktFasTur PróFasTur, Jack Frost, Arnór Gíslason og DJ Vrong. Þar af leiðandi segir rapparinn að platan sé „hálfgert ferðalag í gegnum mismunandi hljóðheima frekar en að eitthvað ákveðið ,sound' einkenni plötuna.“

„Þetta hefur verið heljarinnar verkefni og platan er búin að vera í vinnslu í heilt ár. Friðrik Þór Jóhannsson sá um upptökur í Dirty Basement Studio fyrir utan þrjú lög sem tekin voru upp í Glacier Mafia Studios, Studio History og Basement 13. BRR vann alla plötuna auk þess að ,mix-a' hana og Earmax (meistari Gnúsi Yones) masteraði. Bróður og barni heilsast vel.“

– Bróðir BIG

Að lokum er vert að nefna að DJ B-Ruff og DJ Bricks skiptu plötuklórinu á plötunni á milli sín.