Chase gefur út nýtt myndband: „Plata væntanleg um miðjan september.​“​

Íslenskt

Síðastliðinn föstudag (1. september) stóð til að söngvarinn Chase Anthony myndi líta við í útvarpsþáttinn Kronik á X-inu 977 en forfallaðist hann því miður sökum anna. 

Hugðist söngvarinn flytja nýtt efni fyrir hlustendur þáttarins í beinni, þar á meðal lagið Þekkir þá en myndband við lagið rataði inn á Youtube í gær (sjá hér fyrir ofan). Lagið fór beint á toppinn á Youtube og hefur fengið yfir 5.000 spilarnir á 12 klukkustundum.

Lagið pródúseraði Oddur Þórisson og var leikstjórn í höndum Tómasar Welding. Í samtali við SKE í morgun sagði Chase að lagið væri gefið út í framhaldi af vinsældum lagsins Ég vil það sem hann samdi í samstarfi við rapparann JóaPé (sjá neðst):

„Lagið var unnið í samstarfi við Odd Þórisson, pródúsernum mínum, og var hugsað sem framhald af þessari íslensku stefnu sem við ákvaðum að fara að vinna með eftir að ,Ég vil það' varð svona vinsælt. Fyrir það vorum við bara búnir að gefa út á ensku. Myndbandið var unnið með Tómasi Welding þar sem við nýttum meðal annars gamlar klippur úr myndbandi sem við vorum búnir að skjóta við enskt lag. Lagið verður að finna á væntanlegri plötu sem kemur út um miðjan september.“

– Chase

Samkvæmt umsjónarmönnum Kronik stendur til að fá Chase í næsta þátt (næstkomandi föstudag á milli 18:00 og 20:00 á X-inu 977) í því augnamiði að flytja Þekkir þá í beinni.