Dadykewl og Alvia saman í nýju myndbandi: "Klakarnir"

Fréttir

Síðastliðið fimmtudagskvöld (17. maí) frumsýndi tónlistarmaðurinn Dadykewl nýtt myndband á Prikinu í samstarfi við Alviu. Um ræðir myndband við lagið Klakarnir sem Baldvin Vernharðsson leikstýrði—en í dag (19. maí) rataði myndbandið loks á Youtube (sjá hér að ofan).

Lagið Klakarnir verður að finna á plötunni Klámstjarna sem Dadykewl gefur út næstkomandi 24. maí. Í samtali við SKE síðastliðinn fimmtudag lýsti Dadykewl tilurð lagsins á eftirfarandi veg:

„Ég smíðaði takt lagsins og fyrsta erindi þess á meðan ég horfði á japönsku manga seríuna Death Note í stofunni heima. Af einhverjum ástæðum skúffaði ég lagið í u.þ.b. sex mánuði en í millitíðinni fæddist viðlagið. Ég var svo með viðlagið á heilanum í nokkrar vikur áður en ég talaði við Alviu. Í kjölfarið bjuggum við til þetta koncept og kláruðum loks lagið.“

– Dadykewl