Drake púaður af sviði

Æstir Frank Ocean aðdáendur púuðu á greyið Drake

Drake er sennilega ekki oft púaður af sviði þessa dagana en það gerðist heldur betur í gær. Kanadíski sprelligosinn Drake var leynigestur á Camp Flog Gnaw tónleikum Tylers, the Creators og var það bara flott í fyrstu. Fólk var upphaflega nokkuð hresst með að fá hann á svið en af einhverjum ástæðum var orðrómur um að Frank Ocean ætti að spila búinn að ganga um áhorfendaskarann og fólk fékk fljótlega leið á söngfuglinum frá Toronto og vildi Frank sinn. Drake taldi í Wu Tang Forever og spurði svo fólkið hvort hann ætti að halda uppteknum hætti hrópaði þá fólkið til baka að það ætti hann svo sannarlega ekki að gera - við viljum Frank á svið, æpti lýðurinn í kjölfarið á því og Drake sagði bara bless bless og fór heim.

Tyler var hálf súr yfir þessu öllu og tísti um það í dag. Hann segist skilja það að Drake og hann sjálfur deili kannski ekki aðdáendum og mögulega sé smekkur þeirra því mismunandi - Drake verandi poppstjarna og Tyler svona meira í alternative senuninni - en hann fór samt sem áður ekki fögrum orðum um púarana. Enda líka argasti dónaskapur að púa á fólk, jafnvel þó að það sé poppstjörnur og/eða ekki Frank Ocean. Ef það væri í lagi að púa á allt sem er ekki Frank Ocean væri maður bara púandi heilu dagana.