Gamall "freestyle" kóngur gefur út fríkað myndband: Hyung

Erlent

Orðlaus

Sögnin "to dumbfound" á ensku merkir „að gera e-h orðlausan (af undrun, t.d.).“ Segja má að þessi sögn eigi vel við nýjasta myndband rapparans Dumbfoundead sem kom út í gær (16. maí) en í einni senu myndbandsins er höfði rapparans til dæmis komið fyrir á búk ungabarns með stafrænni tækni. Myndbandið skartar suðurkóresku röppurunum Dok2, Simon Dominic og Tiger JK (sjá hér fyrir ofan).

Jonathan Park

Dumbfoundead heitir réttu nafni Jonathan Park og fæddist hann 18. febrúar 1986 í Buenos Aires, Argentínu. Hann er sonur tveggja suðurkóreskra innflytjenda en þegar Park var aðeins þriggja ára gamall smyglaði móðir hans honum og systur hans yfir landamærin á milli Mexíkó og Bandaríkjanna og settust þau að í Kóreu-hverfinu í Los Angeles. 

Frá unga aldri hafði Park mikinn áhuga á rapptónlist og gat sér fljótt gott orðspor sem lunkinn rappari – og þá sérstaklega á sviði 'freestyle' rapps (sumsé, að semja rímur að munni fram). Aðeins 11 ára gamall var hann tíður gestur Project Blowed, einskonar vinnustofa fyrir listamenn, ljóðskáld, dansara, tónlistarmenn og rappara í South Central hverfinu í Los Angeles, þar sem hann þróaði hæfileika sína.

Rímnastríð

Skólaganga Park var fremur skammvinn en hann hætti í skóla 16 ára gamall og flutti í litla íbúð í MacArthur Park ásamt systur sinni. Áður en hann hafði lifibrauð sitt af rapptónlist tók hann að sér ýmis furðuleg störf. Seinna laðaði hann að sér aðdáendur á Youtube með hæfileikum sínum í rímnastríði ("battle rap") og keppti hann meðal annars í King of the Dot rappkeppninni í Kanada – þar sem sjálfur Drake var hæstánægður með frammistöðu hans. Hér fyrir neðan má sjá myndband af Dumbfoundead keppa í rímnastríði (hann byrjar að rappa í kringum 2:40).

Foreigner

Á ferli sínum hefur Dumbfounded gefið út fjórar hljóðversplötur (sem sóló listamaður): Árið 2011 gaf hann út sína fyrstu plötu, DFD. Henni fylgdu svo plötunnar Take the Stares (2012), Old Boy Jon (2013) og We Might Die (2016). Þann 23. maí næstkomandi mun svo platan Foreigner koma út en lagið Hyung verður að finna á þeirri plötu. 

Þess má einnig geta að Dumbfoundead og Anderson .Paak (sem spilar á Secret Solstice hátíðinni í sumar) hafa áður starfað saman (sjá hér fyrir neðan). Anderson .Paak gekk þá undir nafninu Breezy Lovejoy.