Edda Kristín Sigurjónsdóttir

„Það er nóg að koma og leyfa sér að finna, anda að sér því sem fyrir augu og vit ber"

Frá árinu 2006 hefur hin alþjóðlega Sequences- listahátíð verið haldin í Reykjavík, fyrst um sinn árlega en frá árinu 2009 annað hvert ár. Hátíðin er sjálfstæð með áherslu á rauntímatengda list, svo sem gjörninga, vídeó- og hljóðverk og innsetningar. Eftir því sem undirritaður kemst næst er hátíðin hin eina hérlendis sem einvörðungu fæst við myndlist. Á hátíðinni má gjarnan sjá framsækna list, ögrandi og áhugaverða, fá löðrung eða létt klapp á bakið. SKE tók Eddu Kristínu Sigurjónsdóttur tali en hún er í forsvari fyrir hátíðina.

Geturðu sagt mér lítillega frá tilurð Sequences- hátíðarinnar?
Sequences er 10 daga myndlistarviðburður sem leggur áherslu á tímatengda miðla og er nú haldin sjöunda sinni. Sequences er einhvers konar flæðandi strúktúr sem öðlast líf og karakter út frá innihaldinu hverju sinni. Hátíðin er sprottin úr grasrótinni og á sér tilraunakennt sjálf og er þannig vettvangur þar sem svigrúm og frelsi er til að gera ný verk með tilheyrandi mögulegum mistökum og óvæntri útkomu, en einnig sýna verk sem þegar hafa fundið sér farveg. Það eru Kling&Bang gallerí, Nýlistasafnið og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar sem standa að hátíðinni.

Á Sequences gefst fólki kostur á að skyggnast inn í það sem er að gerast í framsækinni myndlist á Íslandi og erlendis, sækja sér innblástur og svala forvitninni. Boðið er til sýninga á 10 sýningarstöðum þar sem 26 íslenskir og erlendir myndlistarmenn sýna verk sín. Dagskráin sem nær yfir 10 daga sýningartímann er hæfilega þétt, auk þess sem utandagskráin er fjölbreytt og kjarnmikil. Á Sequences VII sýna bæði íslenskir og erlendir myndlistarmenn sem eru staddir á ólíkum stað í ferli sínum og það má því sjá verk bæði eftir nýútskrifaðan myndlistarmann og aðra sem hafa starfað í fleiri ár, jafnvel áratugi. Sýningarstaðirnir eru flestir í göngufæri við miðbæinn og upplagt fyrir unga og aldna að fara á bæjarrúnt og anda að sér þessum nærandi og skörpu straumum.

Á hátíðinni er hverju sinni lögð áhersla á tiltekin umfjöllunarefni – að hverju er sjónum beint að þessu sinni?
Yfirskrift Sequences VII er PLUMBING, og vísar til hugmynda um tengingar í stóru og smáu samhengi, áþreyfanlegar og huglægar tengingar; víra, pípur, eldfjallakerfi, internetið, kerfi líkamans og jafnvel ferðalagið á milli tveggja punkta: A og B, himins og jarðar eða lífs og dauða. Hugmyndin er í raun mjög einföld en teygir anga sína víða eins og liggur í eðli hennar.

Hingað hafa komið margir áhugaverðir erlendir listamenn á vegum hátíðarinnar. Hvaða erlendu listamenn sækja hana heim í ár?
Fjórtán erlendir myndlistarmenn sína verk sín á Sequences VII og þar ber fyrst að nefna Carolee Schneemann sem er heiðurslistamaður hátíðarinnar. Sýning á verkum hennar er í Kling&Bang við

Hverfisgötuna. Carolee er brautryðjandi í myndlistinni og myndlistarmenn, sviðslistafólk og fjölmargir aðrir sækja innblástur í verk hennar. Hún hefur í raun aldrei slegið í gegn og verkin yfirleitt verið umdeild og sjaldnast vinsæl á þeim tíma sem hún hefur gert þau. Það er eins og hún ýti á hverjum tíma á auman blett í samfélaginu. Á sjöunda áratugnum átti fólk t.a.m. erfitt með nakta kvenlíkama en nú á fólk erfitt með konu á áttræðisaldri sem gerir verk þar sem hún gerir verk með köttunum sínum.

Í Loftsson, þar sem Nóatún var áður, má líka sjá verk Beatrice Pediconi, mjög seyðandi fjögurra rása vídeoinnsetningu, verk tveggja eistneskra listamanna, Kris Lemsalu sem gerir ólgandi og kraftmikil verk og Raul Keller sem hefur talsvert unnið með mót ímyndaðs veruleika, vísinda og raunveruleika, útvarpssendinga til tunglsins og mörk samskiptanna. Í Nýlistasafninu í Völvufellinu í Breiðholti eru svo t.d. verk Jordan Baseman og Sally O ́Reilly ásamt tveggja íslenskra myndlistarmanna svo það er upplagt að skella sér í úthverfabíltúr.

Hverjir eru hápunktar hátíðarinnar í ár – ef má yfirleitt tala um slíka?
Ég vil fara varlega í að tala um hápunkta, en Sequences er það sem hún er í samtakamætti allra listamannanna, sýningarrýmanna og þeirra sem koma að hátíðinni og styðja við hana með einhverju móti. Ég á eiginlega ekki til orð yfir þennan samtakamátt sem ég er búin að finna svo ríkulega fyrir í framkvæmd hátíðarinnar. Þannig að hver bútur í púslinu skiptir miklu máli og verður órjúfanlegur hluti af heildinni.

Við erum auðmjúk og þakklát fyrir að hafa Carolee Schneemann sem heiðurslistamann, það er mjög í anda Sequences að geta boðið gestum að sjá og finna verkin hennar. Sem dæmi um aðrar sýningar og viðburði má nefna Loftsson í JL húsinu en þar eru sýningar í gamla Nóatúnsrýminu og uppi á 5. hæð þar sem maður smýgur ljúflega inn í hljóðheim Finnboga Péturssonar. Rýmið niðri færir mann eiginlega eitthvert til útlanda og verður áminning um hreyfiaflið sem myndlistin er. Þar sýna 8 myndlistarmenn í stóru opnu rýminu og ferðalagið teygir sig frá Miðjarðarhafinu og út á Faxaflóa í verki Heklu Daggar Jónsdóttur, inn í astralskan ljósapýramýda Kolbeins Huga, á bólakaf í verki Beatrice Pediconi og með lendingarstað í videoverki Graham Gussin sem er nánast eins og sérsniðið inn í rýmið.

Mig langar svo rétt að nefna nýjan sýningarstað í Bankastræti 0, á gömlu klósettunum, þar sem Ragnar Helgi Ólafsson sýnir og sýningu á verkum Styrmis Arnar og Unu Margrétar Árnadóttur á Hótel Holti, en þau falla svo dásamlega inn í anda hótelsins. Samstarfið við Holtið hefur verið frábært, allir gestirnir okkar gista þar og dvelja í góðu yfirlæti og Styrmir Örn býður gestum á gjörninga út vikuna og ég hvet fólk til að mæta á auglýstum tímum.


Þannig að hver bútur í púslinu skiptir miklu máli og verður órjúfanlegur hluti af heildinni.

– Edda Kristín Sigurjónsdóttir

Þú mátt skila því til Ragnars Helga að ég biðji að heilsa á klósettið. Hvað um það. Hvaða þýðingu heldurðu að viðburður á borð við Sequences hafi fyrir hérlent listalíf?

Sequences er á sífelldri hreyfingu og hefur mikla þýðingu bæði fyrir þróun myndlistarsenunnar á Íslandi, aðgengi almennings að myndlistinni og tengingu við erlendu myndlistarsenuna. Á hátíðinni eru sýnd verk sem efnisgera ólgandi sköpunarkraftinn sem er alltumlykjandi í myndlistarlífinu og við reynum hvað við getum til gera hana aðgengilega almenningi, t.a.m. með sýningarrölti með leiðsögn.

Um leið er það mikilvægt að næra tenginguna við erlendu myndlistarsenuna og þar er Sequences einhvers konar gott verkfæri. Á Sequences eiga mörg samtölin sér stað sem við óskum þess svo að finni sér farveg í áframhaldandi sýningahaldi, gerð nýrra verka og framhaldslífi þeirra verka sem til hafa orðið í tilefni hátíðarinnar.

Myndlistin getur held ég haft talsverðan mátt sem seytlar inn í ólík lög samfélagsins og ég hef satt að segja mjög einlæga trú á mikilvægi hennar til að næra ímyndunaraflið og gagnrýna hugsun einstaklinganna sem móta samfélagið. Það er eins og þetta tvennt aflærist á lífsleiðinni og mann langar sífellt að hreyfa við þessu.

Er fólk almennt áhugasamt um framsækna myndlist, s.s. gjörninga, vídeólist o.þ.h.?
Ég myndi segja að áhuginn væri þokkalega mikill. Fólk er stundum feimið við að koma og finnst það þurfa að hafa vit á myndlist til að koma, en raunin er sú að það eru allir mjög velkomnir. Það er nóg að koma og leyfa sér að finna, anda að sér því sem fyrir augu og vit ber. Auðvitað óskum við þess alltaf að fleiri nýti sér það sem er í boði, en það er líka sífellt margt í boði. En aðsóknin á þær fjölmörgu opnanir, sýningar og viðburði sem þegar hafa átt sér stað hefur verið frábær og ég get ekki annað en verið mjög ánægð með áhuga og aðsókn gesta á Sequences VII. Það er sannarlega ánægjulegt að sjá hvað margir eru forvitnir á þessum ólgandi veðratímum.

Að lokum spyr ég eins og þumbinn sem ég er: Hví tvíæringur frekar en árleg hátíð?
Það er í rauninni ákvörðun sem tekin var út frá nokkrum þáttum. Einn er sá að til að gera góða hátíð með skýra sýn þarf að leggja mikla vinnu í og Sequences á engan fastan strúktúr eða starfsmann sem getur sinnt henni. Það hentar Sequences nokkuð vel að vera tvíæringur. En þegar upp er staðið þá er þetta í rauninni fjárhagslegt mál. Ég held að peningar séu í raun einna best nýttir í menningargeiranum enda sköpunarkrafturinn þess eðlis að hann finnur sér alltaf farveg og fyrrnefndur samtakamáttur og eldmóður er kynngimagnaður. En eilíf blóðtaka er ekkert endilega hressandi til lengdar samt svo það væri vissulega ánægjulegt ef ríkari fjárfesting og samspil hins opinbera og einkageirans kæmi sterkari inn á komandi árum. Beinn fjárhagslegur ávinningur Sequences á sama hátt og verka úr grasrótinni er sjaldnast mikill, hvort heldur er í myndlist, tónlist, hönnun, bókmenntum eða öðrum skapandi greinum, en snertifletir við sköpunarverk mun stærri hóps eru fjölmargir þar sem þessi verk verða brunnur. Einhvers konar frumkraftur sem svo fjölmargir sækja innblástur í, sbr. verk Carolee Schneemann svo dæmi sé nefnt. Við erum með ýmsar hugmyndir í farteskinu sem munu búa til tenginu á milli ára og óskum þess að geta nýtt þetta fyrirbæri sem Sequences er enn betur, það væri gaman!

Því er SKE hjartanlega sammála og þakkar Eddu kærlega fyrir viðtalið og óskar henni og öllum sem koma að Sequences gleðilegrar og dálítið radíkal hátíðar.