„Ein allra sterkasta rappplata sem gefin hefur verið út hér á landi“—Birnir gefur út sína fyrsta plötu

Fréttir

Á miðnætti (20. ágúst) gaf rapparinn Birnir út plötuna Matador (sjá hér að neðan) en um ræðir fyrstu breiðskífu rapparans. Platan geymir níu lög og skartar góðum gestum á borð við Flona, Bleache, Joey Christ, Unnstein Manuel og GDRN. Þá er taktsmiðurinn Arnar Ingi Ingason (Young Nazareth) í aðalhlutverki hvað lagaútsetningu og hljóðvinnslu varðar en einnig kemur Marteinn Hjartarson (BNGRBOY) við sögu. 


Frá því að Matador kom út hafa nokkrir listamenn innan íslensku rappsenunnar lofað plötuna, þar á meðal tónlistarmaðurinn Jóhann Kristófer (Joey Christ). Í færslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni laust eftir miðnætt í dag hélt hann því fram að hér væri á ferðinni ein allra sterkasta rapplata sem litið hefur dagsins ljós í sögu íslensks rapps:

„Eftir langa bið er Matador, fyrsta plata Birnis loksins komin í loftið. Þetta er að mínu mati ein sú allra sterkasta rappplata sem gefin hefur verið út hér á landi frá færasta og næmasta rappara landsins. Einnig verð ég að nefna Arnar Inga sem nær áður óséðum hæðum í útsetningum og hljóðvinnslu í íslensku rappi og það hefur verið heiður að fá að fylgjast með þeim vinum vinna þessa plötu. Til hamingju allir sem að komu og til hamingju Ísland!“

– Jóhann Kristófer (Joey Christ)

Hér fyrir neðan eru svo myndbandið við lagið Út í geim ásamt viðtali SKE við Birnir á húðflúrstofunni Memoria Collective.