„Einlægnin sigrar alltaf“—Dadykewl gefur út plötuna "Klámstjarna" (Viðtal)

Viðtöl

SKE: Hljóðheimur er fagurt orð. Í huga undirritaðs, að minnsta kosti, töfrar orðið fram lífræna sýn—titrandi tjaldhiminn vofir yfir iðandi regnskógi tóna, þar sem bassinn er jarðskjálfti, górilla, urr pardussins; trommurnar eru fótatak, dropahljóð, gogg spætunnar; og efra tónsviðið er fuglasöngur. Apaöskur. En þó að allar plötur eigi vissulega sinn hljóðheim þá er það ekki þar með sagt að téður heimur sé stór: Sumar plötur eru naumlega stærri en götuhorn á Raufarhöfn. En hvað um það. Í fyrsta skiptið sem undirritaður hlýddi á plötuna "Klámstjarna" eftir íslenska tónlistarmanninn Dadykewl velti hann fyrrnefndu orði fyrir sérþví platan iðar af lífi (að einhverju leyti að sökum umhverfishljóðanna). Hljóðheimur plötunnar er marglaga, fútúrískur, prímal og allt annað en eintóna. Að loka augunum og ýta á "play" er svolítið eins og að sveifla sér niður úr tjaldþaki raunveruleikans, greipar spenntar um vínviðinn, og lenda einhvers staðar á mörkum Tókíó og Amazon frumskógarins. Við fyrstu hlustun minnir "Klámstjarna" svolítið á Frou Frou, Daft Punk, Drake  (en það segir lesendum líklega ekkert; hugur mannsins er órannsakanlegur og tengingar hans enn fremur svo). Rödd Dadykewl er sérstök, óvanalegsérstaklega í samhengi íslensks rapps. Nýverið heyrði SKE í Dadykewl og forvitnaðist um útgáfuna. Það kom lítið á óvart að megininnblástur plötunnar voru tilfinningar en fyrir þremur dögum síðan deildi Dadykewl "Klámstjarna" á Facebook-síðu sinni og þá undir yfirskriftinni „Einlægnin sigrar alltaf.“

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Daði Freyr Ragnarsson

SKE: Sælir, hvað segirðu gott?

Dadykewl: Í skýjunum!

SKE: Til hamingju með plötuna. Hvað var þetta langt ferli?

Dadykewl: Elsta bítið sem ég smíðaði er u.þ.b. tvegegja ára gamalt (Edinborg) annars má segja að ferlið á plötunni hafi byrjað á Næturljósinu fyrir u.þ.b. ári síðan.


SKE: Það eru engar upplýsingar um pródúser/a plötunnar á Spotify. Smíðaðir þú alla taktana sjálfur?

Dadykewl: Ég er pródúseraði bróðurpart plötunnar en fékk mikið af mismunandi fólki til að hjálpa mér með ákveðin lög: t.d. Smjörva, GKR, Hermann Bridde, Fames og $tarra.

SKE: Hvar var platan hljóðrituð?

Dadykewl: Í litla sæta hljóðverinu okkar niður á Granda—frábærar stundir.

SKE: Platan opnar á laginu Meira en ég þarf. Er nægjusemin ekki vanmetin?

Dadykewl: Nægjusemi er skrítin; því meira sem maður missir því betur kann maður að meta það sem maður hefur. Það getur allt horfið á einu augnabliki. Ég verð reglulega að draga mig í hlé úr ákveðnum aðstæðum til að átta mig á því að það sem ég er að gera og það fólk sem er í kringum mig er frábært.

SKE: Varstu undir áhrifum frá einhverjum sérstökum listakonum/mönnum við
gerð plötunnar?

Dadykewl: Ekki endilega einhver einn sem ég get bent á. Ég fæ eiginlega allan minn innblástur frá tilfinningum, bæði eigin tilfinningum og tilfinningum fólks í kringum mig.

SKE: Titillag plötunnar stendur, að ákveðnu leyti, upp úr. Hvernig kom lagið til?

Dadykewl: Frá óhræddri og sterkri konu sem veit hvað hún vill.

SKE: Platan fjallar, að miklu leyti, um ástina. Ertu ástfanginn?

Dadykewl: Mjög.

SKE: Raddbeitingin þín verður að teljast frábrugðin því sem þekkist í nútímarappi. Hvaðan kemur þessi stíll?

Dadykewl: Mér var rétt plötuna ...And Justice for All eftir Metallica áður en mér var rétt barnamauk—og þaðan hef ég bara gerjast vel.

SKE: Hvernig myndirðu lýsa sjálfum þér?

Dadykewl: ...

SKE: Hvernig lítur venjulegur dagur í lífi Dadykewl út?

Dadykewl: Mjög spontant og óákveðinn.

SKE: Eru tónleikar í vændum?

Dadykewl: Næstkomandi 8. júní eru útgáfutónleikar með Yung Nigo Drippin, Alvia Islandia og litla bróður HRNNR (og Smjörva).

SKE: Eitthvað að lokum?

Dadykewl: Hey, já, verð að minnast á eitt: Það er með mynd á Facebook-síðu Dadykewl með nánari upplýsingar um taktsmiði plötunnar.

(SKE þakkar Dadykewl kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til þess að hlýða á nýju plötuna.)