„Ekki eðlilegt að dópa þótt að sumir rapparar tali um það.“—Þorri

Viðtöl

SKE: Eitt sinn lét velska ljóðskáldið Dylan Thomas ("Do Not Go Gently") eftirfarandi ummæli falla: „Það snjóaði í fyrra: Ég bjó til snjókarl og bróðir minn sló hann niður og ég sló bróðir minn niður og svo fengum við okkur te.“ Þykja þessi orð skáldsins fanga hviklynt samband bræðra ágætlegaþar sem skin og skúrir skiptast áen þó eiga þau, að öllum líkindum, ekki eins vel við samband rapparans Þorra við yngri bróður sinn Óðin Arnarson (Wonayd) þar sem hinn síðarnefndi smíðar takta fyrir hinn fyrrnefnda (þ.e.a.s. eldri bróður sinn); í stað snjókarls og niðurrifs koma, að svo virðist, taktar og uppbygging. En hvað um það ... fyrir rúmum mánuði síðan gaf rapparinn Þorri út lagið "Gotti" á Spotify en lagið hefur fengið fínar viðtökur: frá útgáfu lagsins hafa notendur hlýtt á lagið yfir 40.000 sinnum—og verður það að teljast nokkuð gott. Í maí fylgdi Þorri laginu eftir með útgáfu lagsins "Tala Ekki Við" en í tilefni þess heyrði SKE stuttlega í rapparanum og spurði hann út í tónlistina, framtíðina og ýmislegt annað.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Þorri Arnarson

SKE: Sæll, Þorri. Til hamingju með nýja lagið. Hvað segirðu gott?

Þorri: Takk! Mjög góður.

SKE: Lagið ber titilinn Tala Ekki Við og er þetta þriðja lagið sem þú gefur út, ef lagið Klink er talið með. Hvað hefur breyst frá útgáfu Klinks og Tala Ekki Við—varðandi nálgun þína á tónlist?

Þorri: Klink var fyrsta lagið sem ég gaf út. Það er ekki beint eins og tónlistin sem ég er að gera í dag og það er því spurning hvort að það rati inn á mixteip—en mér þykir samt vænt um lagið. Síðastliðið ár hef ég skapað mikið af tónlist og hef reynt að finna minn eigin hljóm. Mér finnst gaman að blanda saman stílum og tel mig vera með nokkuð fjölbreyttan stíl. 

SKE: Hver er Þorri? Hvaðan kom hann og hvert stefnir hann?

Þorri: Þetta er mjög erfið spurning. Ég held að ég leyfi bara fólki að mynda sér skoðun á því sjálft. 

SKE: Það lag sem hefur haft hvað mestu áhrif á þig?

Þorri: Pretty Flacko 2 með Rocky.

SKE: Hvað finnst þér um upphafningu dóps innan íslensku rappsenunnar?

Þorri: Ég hef ekki mikið um það að segja. Það er ömurlegt að heyra af öllum slysunum sem hafa átt sér stað upp á síðkastið. Ég vona að krakkar átti sig á því að það er ekki eðlilegt að dópa þótt að sumir rapparar tali um það. 

SKE: Er mixteip eða myndbönd í vændum?

Þorri: Já.

SKE: Hvernig lítur sumarið út?

Þorri: Næstu helgi spila ég á Spot (laugardaginn) og svo er bara Secret Solstice og eyjar í sumar. Minni gigg koma í ljós þegar að þeim kemur.

SKE: Uppáhalds punchlína?

Þorri: „Frumskógur í fataskápnum, fötin eru dýr.”

SKE: Wonayd, sem heitir réttu nafni Óðinn Arnarson, smíðar alla taktana þína  en þið eruð jafnframt bræður. Er ekkert erfitt að vinna með litla bró?

Þorri: Við höfum alltaf verið mjög góðir vinir. Auðvitað erum við ekki alltaf sammála um allt en á meðan hann gerir þessa sjúku takta þá get ég ekki kvartað.

SKE: Besti íslenski rapparinn í dag / Besti erlendi rapparinn í dag?

Þorri: Ég elska hvað það eru margir geggjaðir rapparar að grind-a en Herra Hnetusmjör á titilinn skilið að mínu viti. Uppáhalds erlendi rapparinn minn er líklegast A$AP Rocky.

SKE: Eitthvað að lokum?

Þorri: Fylgist með mér á Instagram: thrrrii

(SKE þakkar Þorra kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til þess að fylgjast með honum í framtíðinni.)