The Telegraph: Færeyingar betri en Íslendingar í fótbolta miðað við höfðatölu

Fréttir

Í gær birti breski fréttamiðillinn The Telegraph grein á síðu sinni undir yfirskriftinni Bestu landsliðin miðað við höfðatölu – hvaða lítilmagnar skara fram úr? 

Nánar: http://www.telegraph.co.uk/foo...

Í greininni skipar ónefndur höfundur tuttugu bestu lítilmögnum alþjóðlegs fótbolta – þ.e.a.s. karlalandsliðum – í sæti með því að deila þeim stigum sem Fifa (Alþjóðlega knattspyrnusambandið) hefur úthlutað tiltekinni þjóð með íbúafjölda þjóðarinnar. 

Með þessari aðferð kemst pistlahöfundur að þeirri niðurstöðu að þrjár bestu „fótboltaþjóðirnar“ í heiminum miðað við höfðatölu eru:

3. Ísland
Fifa stig: 927
Íbúafjöldi: 301.931
Stig á haus: 0.0030702379

2. Andorra
Fifa stig: 246
Íbúafjöldi: 79.218
Stig á haus: 0.0031053548

1. Færeyjar
Fifa stig: 376
Íbúafjöldi: 49.469
Stig á haus: 0.0076007196

Glöggir lesendur reka eflaust augun í þá staðreynd að samkvæmt greininni er íbúafjöldi Íslands sagður vera 301.931 en byggjast þessar tölur líklegast á tölfræði frá árinu 2007. Samkvæmt Worldometers (sem byggja tölur sínar á heimildum frá Sameinuðu þjóðunum, WHO, IMF og fleirum) búa 334.776 manns á Íslandi í dag. Einnig byggist íbúafjöldi Andorra á gömlum tölum en samkvæmt Worldometers er íbúafjöldi Andorra 68.647. Íbúafjöldi Færeyja er 48.353 (Worldometers). Ekki breytir þetta þó neinu hvað uppröðun varðar. 

Nánar: https://www.rankingper.com/

Hér er svo listinn í heild sinni:

20. Eistland
19. Gabon
18. Uruguay
17. Slóvenía
16. Wales
15. Sameinuðu arabísku furstadæmin
14. Trinidad og Tobago
13. San Marínó
12. Guam
11. Barbados
10. Bahrein
9. Kýpur
8. Qatar
7. Miðbaugs-Guinea
6. Norður-Írland
5. Grænhöfðaeyjar
4. Svartfjallaland
3. Ísland
2. Andorra
1. Færeyjar

Að lokum má þess geta að færeyska kvennalandsliðið er einnig „betra“ í fótbolta en íslenska kvennaliðið ef ofangreindri reikningsaðferð er beitt.

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Tyrkjum á útivelli næstkomandi 6. október.