Fínt að vera í beef-i við Króla: „Hann er svo málefnalegur.“—SKE spjallar við Suru

Viðtöl

SKE: Það er svo sannarlega nóg um að vera í heimi rapptónlistar um þessar mundir—bæði hvað íslenskt og erlent rapp varðar; erlendis virðist allt um koll ætla að keyra í illdeilum rapparanna Drake og Pusha T og hérlendis hafa listamenn á borð við Yung Nigo Drippin', Aron Can, Gísla Pálma og Dadykewl gefið út plötur með stuttu millibili. Í því samhengi er einnig vert að minnast á tónlistarkonuna Suru sem gaf út nýtt myndband síðastliðinn föstudag. Um ræðir myndband við lagið "Alltaf strax" sem verður að finna á plötu sem Sura hyggst gefa út í haust. Myndbandinu leikstýrði Álfheiður Marta en hún leikstýrði einnig myndbandi Reykjavíkurdætra "Hvað er málið?" (í samstarfi við Magnus Andersen). Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í Suru og spurði hana nánar út í lagið, Solstice, "beef," og ýmislegt annað.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Þura Stína

SKE: Sæl, Sura. Hvað segirðu gott?

Sura: Ég er í svo góðu skapi og er svo sjúklega spennt fyrir sumrinu.

SKE: Til hamingju með myndbandið. Hvernig kom það til?

Sura: Takk fyrir það. Ég vann með henni Álfheiði Mörtu að myndbandi fyrir Hvað er málið eftir Reykjavíkurdætur og fannst geggjað að vinna með henni. Við fórum snemma í byrjun árs að skoða hugmyndir og fara yfir málin og Alltaf strax varð fyrir valinu sem myndbandsútgáfa sumarsins.

SKE: Hver á bílinn í myndbandinu?

Sura: Ohh, ég vildi að ég ætti hann. Ólöf Rut sem sá um öll props og var set designer í myndbandinu fann upphaflega annan bíl á fornbílasíðunni—en við vorum að leita af bleikum bíl sem eigandi fyrsta bílsins benti okkur svo á. Bíllinn er eins og nýr en eigandinn var búinn að vera að gera hann upp í fjögur ár og leggja mikla ást og vinnu í hann.

SKE: Texti lagsins virðist vera á persónulegu nótunum: Hvað geturðu sagt okkur um hann?

Sura: Já, hann er eiginlega um smá stæla í samskiptum en auðvitað er maður oftast að semja um eitthvað sem er nálægt manni. Þetta er kannski alveg smá ýkt útgáfa af því hvernig ég get verið; ég er kannski ekki alveg svona mikið dick en mér fannst alla vega mjög gaman að skjóta myndbandið og fannst mjög náttúrulegt að leika í því—en ætli það sé ekki líka alltaf þannig þegar þú ert að taka upp efni við þín lög og þína texta.

SKE: Hvað ertu að hlusta á um þessar mundir?

Sura: Ég er búin að vera að vinna sumar playlist-a fyrir Nova mikið upp á síðkastið svo ég er búin að vera í smá steiktu rugli, svona miðað við það sem ég er að hlusta á vanalega (haha)—en svo er ég líka bara að vinna mjög mikið í tónlist fyrir mig og CYBER og er einnig að vinna í nýrri plötu sem kemur út í ágúst þannig að það gefst ekki mikill tími í aðra hlustun í augnablikinu.

SKE: Þú kemur fram á tónlistarhátíðinni Secret Solstice í júní. Fyrir hverju ertu spenntust?

Sura: Gucci Mane og Goldlink eru efst á blaði en ég verð farin erlendis að túra á sunnudeginum og missi því af bæði J Hus og Stormzy. Ég mæli eindregið með að allir sjái Stormzy; hann var að spila sama ár og Rvkdtr á Hróaskeldu og ég fullyrði að ég hef aldrei séð svona mikla orku frá einum manni á sviði—hann er geggjaður live. Af íslensku listamönnunum er ég mjög spennt að sjá hvað Bjarki gerir en ég missti af honum á síðastliðnu Sónar og er mjög leið að missa af GDRN.

SKE: Hvar stendur þú í deilum Pusha T og Drake?

Sura: Ég stend alla vega fyrir utan það. Nei, ég hef eiginlega mjög litla skoðun á því. Ég var að reyna að lesa myllumerkið #PushaTvsDrake um daginn og ég gafst upp. Ég kannski kem mér inn í þetta betur í lokin eða með útgáfu næsta beef lags.

SKE: Ef þú yrðir að fara í beef við einhvern annan rappara, íslenskan eða erlendan, hver yrði fyrir valinu?

Sura: Ég væri alveg vonlaus í einhverju beef-i; ég myndi aldrei endast lengi. Ég myndi örugglega vilja gera lag með viðkomandi á endanum, þ.e.a.s. mjög fljótlega eftir að beef-ið myndi hefjast. Ef ég þyrfti að velja myndi ég held ég velja Króla. Hann er svo málefnalegur í textum og í Morfís líka og myndi örugglega ekki leggjast á eitthvað lágt plan. Á sama tíma er það samt hræðileg hugmynd því það elska allir Króla; það myndi eflaust enginn styðja mig í þessu beef-i.

SKE: Ætlarðu að fylgjast með HM og fyrir utan Ísland hvaða lið styður þú?

Sura: Að sjálfsögðu. Ég er reyndar í sama pakka og ég var á EM og verð hvorki heima á Íslandi né úti á leikjunum sjálfum. En það er líka mjög gaman að vera Íslendingur úti á svona stórmóti. Ég er reyndar að spila í Króatíu sama kvöld og Króatíu leikurinn stendur yfir; það verður eitthvað. Sko, ég hélt alltaf með Hollandi þegar ég var lítil en þeir eru ekki með. Mér finnst Nígería með geggjað lið og tryllta búninga en þeir eru í okkar riðli svo þetta er smá snúið. Ætli ég finni eitthvað út úr þessu bráðum samt.

SKE: Helsta prinsipp í lífinu?

Sura: Alltaf að hafa gaman að því sem ég er að gera og halda áfram að vinna í öllu sem ég elska. Ég fæ rosa oft frá fólki hvað ég vinn rosalega mikið en ég er bara að vinna við allt það sem ég elska og legg mikla ástríðu í það. Ef maður elskar ekki vinnuna sína er maður líklega ekki að lifa lífinu til fulls.

SKE: Eitthvað að lokum?

Sura: Já, ég hlakka ótrúlega til að sjá ykkur á Secret Solstice. SURA er á laugardeginum í Fenri en þar verður allt óútgefna efnið mitt tekið í fyrsta skipti ásamt góðum gestum og ég get lofað að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.

(SKE þakkar Suru kærlega fyrir spjallið og hvetur þá lesendur sem ætla að leggja leið sína á Sónar til þess að fylgjast með tónleikum Suru. Hér fyrir neðan er svo lagið "Komast upp" sem Sura gaf út á Spotify um daginn.)