Future með tónleika á Íslandi í október

Fréttir

Ekkert lát virðist á komu vinsælla rappara til Íslands en í fréttatilkynningu frá Senu Live kemur fram að bandaríski rapparinn Future mun stíga á svið í Laugardalshöllinni næstkomandi 8. október. 

Kemst Future þar með í hóp með röppurum á borð við Pharoahe Monch, Rick Ross, Big Sean, Young M.A., Young Thug og Migos sem allir hafa komið fram á tónleikum á Íslandi í ár.

Miðasala á tónleika Future hefst föstudaginn 25. ágúst kl. 10:00 á tix.is en sérstök forsala Senu Live fer fram einum sólarhring áður, fimmtudaginn 24. ágúst kl. 10:00 (allir þeir sem eru skráðir á póstlista Senu Live fá sendan póst með tengli sem gerir þeim kleift að kaupa miða samstundis, degi áður en almenn sala hefst).

Tvö verðsvæði verða í boði: miði í stæði kostar 9.990 krónur en miði í númerað sæti kostar 14.990 krónur.

Upphitun verður í höndum Arons Can og Emmsjé Gauta.

Future hefur starfað með mörgum þekktum listamönnum í gegnum tíðina og má þar helst nefna Drake, The Weeknd og Rihanna. Síðastliðinn febrúar gaf hann út tvær nýjar plötur með viku millibili sem bera titlana FUTURE og HNDRXX en báðar plöturnar fóru beint í fyrsta sæti á Billboard 200 listanum; var þetta jafnframt í fyrsta skipti sem tónlistarmaður nær tveimur plötum í röð á toppi listans.

Hér fyrir neðan má svo sjá myndband við lagið Mask Off – sem notið hefur mikilla vinsælda í ár – ásamt myndbandi af Arnari Frey Frostasyni úr hljómsveitinni Úlfur Úlfur að rappa yfir bítið í útvarpsþættinum Kronik.