Gauti fagnar nýju myndbandi á Bryggjunni á fimmtudaginn

Viðburðir

Næstkomandi fimmtudag (14. september) ætla Emmsjé Gauti og leikstjórinn Magnús Leifsson að frumsýna nýtt myndband á Bryggjunni Brugghús. Lagið ber titilinn Hógvær og er það unnið í samstarfi við Björn Val Pálsson og Reddlights og verður það jafnframt að finna á væntanlegri plötu. 

Í tilkynningu frá rapparanum á Facebook hvetur hann sem flesta til að láta sjá sig:

„Næsta fimmtudag ætlum við að frumsýna nýtt myndband við fyrsta ,single' af nýrri plötu sem ég er að vinna í þessa dagana. Kíkið á Bryggjuna næsta fimmtudag og njótið með okkur. Það verður eitthvað um veitingar í vökvaformi í okkar boði og eftir að þær klárast get ég staðfest góð tilboð á barnum.“

– Emmsjé Gauti

Nánar. https://www.facebook.com/event...

Þess má geta að tæpt ár er liðið frá því að Gauti gaf út plötuna 16. nóvember. Síðast sendi hann frá sér myndband við lagið Lyfti mér upp í maí á þessu ári. 

Leikstjórinn Magnús Leifsson hefur verið iðinn við kolann í ár; ásamt því að hafa leikstýrt þremur myndböndum fyrir tvíeykið Úlf Úlf á hann einnig heiður á sérstöku kynningarmyndbandi fyrir bókina Stofuhiti eftir Berg Ebba.

Ekki er þetta í fyrsta skipti sem Magnús Leifsson og Emmsjé Gauti leiða hesta sína saman en áður unnu þeir saman að gerð myndbandanna við lögin Strákarnir og Svona er þetta