Vinsæl Youtube rás fjallar um Ísland – Geography Now!

Youtube

Youtube rásin Geography Now! nýtur mikilla vinsælda meðal manna á netinu en rásin státar sig af tæplega 600.000 áskrifendum. Markmið rásarinnar er að heimsækja öll ríki heims í stafrófsröð með það fyrir stafni að fræða áskrifendur um sögu og menningu hvers og eins lands. 

Nýverið sóttu umsjónarmenn rásarinnar Ísland heim og ef marka má ummæli þáttastjórnandans Paul B. (einnig þekktur sem Barby) var teymið sérdeilis ánægt með komu sína til landsins (sjá hér fyrir ofan). 

„Ísland þarf hvorki skemmtigarða né rússíbana þar sem öll eyjan er einskonar undraland.“

– Paul B.

Í myndbandinu, sem er tæplega 12 mínútur að lengd, gerir fyrrnefndur Paul B. sitt
besta til þess að bera fram staðarheitin sem koma fyrir í þættinum og það með
ágætum árangri. Mælir hann þó ekki með því að áhorfendur geri sér drykkjuleik úr
framburði sínum – þ.e.a.s að áhorfendur dreypi á áfengi í hvert skipti sem hann ber íslensk staðarheiti rangt fram – þar sem slíkt gæti reynst hættulegt.

Athygli vekur að einn aðstandenda þáttarins, Brandon, fékk sér húðflúr af Kirkjufelli á meðan á heimsókninni stóð. 

Um miðbik myndbandsins lýsir hann Íslendingum sem skemmtilegu fólki sem er vel þess virði að blanda geði við:

„Ef norrænt fólk væri fjölskylda þá væri Íslendingurinn litli bróðirinn sem strandaði á lítilli eyju og varð síðar að villimanni.“

– Paul B.

Þess má geta að þrátt fyrir að myndbandið hafi komið út rétt fyrir hádegi í dag (12. júlí) hafa 35.000 manns þegar horft á þáttinn.