Lygilegir lagabútar—10 þekkt lög sem byggjast á „sömplum“

Áhugavert

Sampl-menningin er einn af burðarstólpum Hip Hop tónlistar—en var þó að öllum líkindum enn afdrifaríkari á tíunda áratugnum. Fyrir þá sem ekki þekkja til sampl-menningarinnar mætti lýsa fyrirbærinu sem einskonar sköpunartækni þar sem pródúsentar eða taktsmiðir fá hljóðbúta að láni frá öðrum listamönnum (þ.e.a.s. þegar hljóðrituðum lögum) í því augnamiði að skapa eitthvað nýtt. Til dæmis hafa fjölmargir taktsmiðir fengið trommurnar í laginu Funky Drummer eftir James Brown að láni (sjá hér að neðan / ca. 05:20), þar á meðal DJ Premier, Dr. Dre og fleiri. 

Til heiðurs sampl-menningarinnar tók SKE saman nokkur góð lög eftir listamenn sem innihalda sömpl úr öðrum lögum; viðurkennum við jafnframt að sum sömplin komu verulega á óvart. 

Lagið: The Fugees — "Ready Or Not" 
Samplið: Enya — "Boadicea" (00:09)

Lagið Ready Or Not er að finna á plötunni The Score sem kom út árið 1996. Ready Or Not naut mikilla vinsælda í kjölfar útgáfunnar—ásamt lögunum Killing Me Softly og Fu-Gee-La—en eflaust eru fáir sem vita að lagið var smíðað í kringum hljóðbút úr laginu Boadicea eftir írsku söngkonuna Enya. Taktinn smíðuðu meðlimir The Fugees í samstarfi við pródúsentinn Te Bass.

Lagið: Future — "Mask Off"
Samplið: Tommy Butler — "Prison Song" (00:00)

Lagið Mask Off eftir bandaríska rapparann Future var eitt af vinsælustu lögunum árið 2017 (lagið var í 5. sæti Kronik yfir erlendu lög ársins). Lagið pródúseraði taktsmiðurinn Metro Boomin og grundvallast takturinn á melódíu úr laginu Prison Song eftir Tommy Butler. Þess má einnig geta að sænski taktsmiðurinn DJ Embee (LoopTroop) samplaði Prison Song um aldamótin síðustu í laginu Top Dogz. 

Lagið: Beyoncé — "Crazy In Love"
Samplið: The Chi-Lites — Are You My Woman (00:09)

Lagið Crazy In Love er að finna á fyrstu plötu söngkonunnar Beyoncé, Dangerously In Love, sem kom út árið 2003. Lagið skartar rapparanum Jay-z og naut það mikilla vinsælda (lagið vann meðal annars til Grammy verðlauna árið 2004). Lagið pródúseraði Beyoncé í samstarfi við Rich Harrison og fengu þau hljóðbút úr laginu Are You My Woman eftir The Chi-Lites að láni; eru margir á því að vinsældir lagsins eigi rætur að rekja til hornanna í viðlagi lagsins—þar á meða Beyoncé sjálf ("It's the horn hook.")

Nánar: http://www.mtv.com/news/148478...

Lagið: Gnarls Barkley — "Crazy"
Samplið: Gianfranco & Gian Piero Reverberi — "Nel Cimitero Di Tucson" (00:09)

Lagið Crazy eftir tvíeykið Gnarls Barkley (Cee-Lo Green og Danger Mouse) var vafalaust eyrnarormur ársins 2006. Lagið er að finna á plötunni St. Elsewhere sem kom út sama ár og varð lagið svo vinsælt í Bretlandi að tvíeykið—í samráði við útgáfufyrirtæki sitt— ákvað að fjarlægja lagið úr plötubúðum svo að aðdáendur myndu minnast lagsins á ástúðlegan hátt í stað þess að fá leið á því (líklegast gekk það ekki eftir). Danger Mouse samplaði lagið Nel Cimitero Di Tuscon eftir Reverberi bræðurna frá Ítalíu.

Lagið: Eminem — "My Name Is"
Samplið: Labi Siffre — "I Got The ..." (02:10)

Lagið My Name Is er að finna á plötunni The Slim Shady LP sem kom út árið 1999. The Slim Shady LP var fyrsta plata Eminem sem kom út á vegum plötufyrirtækjanna Aftermath og Interscope. Lagið pródúseraði Dr. Dre og er takturinn smíðaður í kringum lagabút úr laginu I Got The ... eftir Labi Siffre. Í fyrstu neitaði Siffre, sem er samkynhneigður, að gefa Dr. Dre leyfi fyrir notkun lagabútsins vegna þess að honum fannst texti Eminem ósmekklegur (Eminem breytti textanum í kjölfarið og leit lagsins ljós stuttu síðar). 

Nánar: https://en.wikipedia.org/wiki/...

Lagið: Tupac — "California Love"
Samplið: Joe Cocker — "Woman to Woman" (00:11)

Lagið California Love var fyrsta lagið sem rapparinn Tupac gaf út eftir níu mánaða fangelsisvist í Clinton Correctional fangelsinu í New York (enginn annar tónlistamaður hefur gefið út plötu sem ratar í fyrsta sæti Billboard-listans á meðan hann situr inni, en svo varð raunin með plötuna Me Against the World). California Love kom út árið 1995. Lagið pródúseraði Dr. Dre en takturinn grundvallast á sampli úr laginu Woman to Woman eftir Joe Cocker. Þess má geta að Ultramagnetic MC's og EPMD sömpluðu einnig Woman to Woman  á sínum tíma.

Lagið: De La Soul — "Me, Myself and I"
Samplið: Funkadelic — "Knot Just Knee Deep" (00:00)

Lagið Me, Myself and I er að finna á fyrstu hljóðversplötu De La Soul, 3 Feet High and Rising, sem kom út árið 1989. Lagið pródúseraði Prince Paul í samstarfi við De La Soul. Me, Myself and I inniheldur sampl úr laginu Knot Just Knee Deep eftir hljómsveitina Funkadelic. Samkvæmt forsprakka Funkadelic, George Clinton, borguðu De La Soul 100.000$ fyrir samplið (u.þ.b. 200.000$ í dag, eða 20,5 milljónir ISK) en þetta kemur fram í viðtali George Clinton við NPR.

Nánar: https://hiphopdx.com/news/id.31329/title.george-clinton-says-de-la-soul-paid-100000-for-me-myself-and-i-sample#

Lagið: Warren G — "Regulate"
Samplið: Michael McDonald — "I Keep Forgetting" (00:00)

Lagið Regulate kom út árið 1994 og hljómar meðal annars í kvikmyndinni Above the Rim. Lagið pródúseraði Warren G sjálfur og grundvallast bítið á hljóðbúti úr laginu I Keep Forgetting eftir Michael McDonald. Til gamans má geta að samkvæmt grein á vefsíðu Billboard hittust þeir Michael McDonald og Warren G aðeins einu sinni á ævinni—þó svo að hinn síðarnefndi eigi McDonald feril sinn að þakka—og það fyrir slysni í New York árið 1996 eða 1997; voru þeir báðir staddir á rauðu ljósi og í sitt hvorum bílnum þegar Warren G tók eftir McDonald, skrúfaði niður rúðuna og heilsaði honum kumpánlega. Hældu þeir hvor öðrum í bak og fyrir og kvöddust svo þegar græna ljósið birtist.

https://www.billboard.com/arti...

Lagið: Kendrick Lamaar — "Bitch, Don't Kill My Vibe"
Samplið: Boom Clap Bachelors — "Tiden Flyver" (00:00)

Lagið Bitch, Don't Kill My Vibe eftir rapparann Kendrick Lamar kom út árið 2012 og er að finna á plötunni Good Kid, M.A.A.D. City sem kom út á vegum Top Dawg Entertainment sama ár. Lagið pródúseraði Sounwave og er takturinn smíðaður í kringum sampl úr laginu Tiden Flyver eftir dönsku hljómsveitina Boom Clap Bachelors. Upprunalega átti lagið Bitch, Don't Kill My Vibe að skarta söngkonunni Lady Gaga en samstarfið datt upp fyrir vegna þess að „tímasetning var ekki rétt“ (skv. Wikipeida). 

Lagið: Dr. Dre — "Nuthin' But A 'G' Thang"
Samplið: Leon Haywood — "I Wanta Do Something Freaky To You" (00:00)

Lagið Nuthin' But A 'G' Thang er að finna á plötunni goðsagnakenndu The Chronic (þess má geta að útvarpsþátturinn Kronik á X-inu 977 heitir í höfuðið á plötunni) sem kom út árið 1992. Lagið er löngu orðið sígilt en takturinn, sem Dr. Dre smíðaði sjálfur, grundvallast á sampli úr laginu I Wanta Do Something Freaky To You eftir Leon Haywood. Nuthin' But A 'G' Thang komst ekki í fyrsta sæti Billboard listans yfir vinsælustu lög Bandaríkjanna og þurfti Dre að sætta sig við annað sætið; lagið Informer eftir rapparann Snow (sem nýtur ekki sömu virðingar í dag) kom í veg fyrir það.