Master of None (Season 2): hugleiðingar um ástina

Pistlar

Áður en hugtakið „ást“ varð til, var engin ást.

Aldrei kom það fyrir, fyrir tíð tungumálanna, að einn maður sagði við annan:

„Hún er falleg og kynlífið er gott – en ég veit ekki hvort að ég sé ástfanginn; við deilum ekki sömu áhugamálunum. Ég hef gaman að Woody Allen og Debussy en hún er meira fyrir Scorsese. Einnig finnst henni Debussy vera ofmetinn og vill heldur hlýða á Wagner – í ofanálag þolir hún ekki Drake.“

Þá var ekkert sjónvarp, engin klassísk tónlist, engar kvikmyndir, ekkert – bara þegjandi samkomulag tveggja einstaklinga (sem bjuggu í grennd við hvort annað) sem grundvallaðist, að öllum líkindum, á holdlegu samneyti.

Svo fæddist tungumálið og með tungumálinu fæddust hugtök á borð við „fegurð,“ „rómantík,“ og „samlyndi.“

Flæktust málin þá nokkuð – því tungumálið gat einnig af sér önnur fyrirbæri: trúarbrögð, búskap, list, pólitík, o.s.frv.

Tilhugalífið fæddist.

Ekki var það lengur dugandi fyrir tvær manneskjur að líka vel við hvort annað, heldur þurftu þær nú að segja hug sinn, að tjá ást sína í rituðu máli og töluðu, að deila sameiginlegum áhugamálum, sumsé – AÐ TALA SAMA TUNGUMÁL.

Tungumál og menning gerðu mönnunum kleift að dæma einhleypa manneskju út frá fleiri eiginleikum en áður:

Ekki bara hleypur hratt, hávaxin/n, slátraði eitt sinn híenu – heldur líka sterklega vaxin/n, trúrækin/n, hefur áhuga á bókmenntum.

Svo kom tæknin – og flæktust málin enn frekar. Í dag – með tilkomu bílanna, símanna, flugvélanna, Alnetsins, tölvupóstsins, snjallsímanna, Tinder, o.s.frv – eru möguleikarnir endalausir: 

1. Aldrei fyrr hafa jafn margar manneskjur búið á jörðinni.
2. Aldrei fyrr hefur verið jafn auðvelt að ferðast á milli landa.
3. Aldrei fyrr hefur verið jafn auðvelt að kynnast öðrum einhleypum einstaklingum á netinu.

En með auknum möguleikum hækkar flækjustigið.

Þáttaröðin Master of None fjallar að einhverju leyti um þetta, sumsé ástina á 21. öldinni. Grínistinn Aziz Ansari fer með hlutverk Dev Shah í þáttunum en Dev leitar af ástinni í völundarhúsi nútímatækninnar (Aziz Ansari framleiðir þáttaröðina ásamt Alan Yang). Þáttaröðin er í senn fyndin, áhugaverð og hjartnæm.

Síðastliðinn föstudag rataði önnur sería þáttarins Master of None á Netflix en fyrsta sería Master of None naut mikilla vinsælda þegar hún kom út árið 2015. 

Í tilefni útgáfu annarrar seríu Master of None tók SKE saman 10 góð lög sem hljóma í annarri seríu, mælum við jafnframt heilshugar með þáttunum: 

1. Tupac – Only God Can Judge Me

2. D'Angelo – Brown Sugar

3. Kraftwerk – Computer Love

4. Digable Planets – Rebirth of Slick

5. Craig Mack feat. Biggie Smalls – Flava In Ya Ear (Remix)

6. New Edition – Can You Stand the Rain

7. Mr. Fingers – Mystery of Love

8. Timmy Thomas – The Coldest Days of My Life

9. Ennio Morricone – Alla luce del giorno

10. Bobby Charles – I Must Be In A Good Place Now

Einnig hvetjum við lesendur til þess að kynna sér lagalistann Master of None: All Songs in Season 2 eftir Pitchfork á Spotify: