Minnesota Vikings deila myndbandi frá heimsókninni til Íslands

Fréttir

Eins og fram kom í hérlendum fjölmiðlum í sumar sóttu nokkrir leikmenn NFL-liðsins Minnesota Vikings Ísland heim í sumar. 

Í dag birti Youtube-rás liðsins myndband af heimsókninni þar sem fyrrnefndir leikmenn kíkja á æfingu hjá Einherjum, eina ruðningsliði Íslands.

Myndbandið geymir meðal annars viðtal við Nicholas Woods, Bandaríkjamann sem hefur búsetu á Íslandi, en eins og fram kemur í viðtalinu þá er hann virkilega hrifinn af landinu:

„Ég elska Ísland – fyrir utan veðrið. Það er svolítið brjálað hérna. Miðað við Los Angeles í Kaliforníu, þar sem ég bjó lengi. En ég er ánægður með þetta. Ég hef gaman að fólkinu, menningunni og við erum að reyna að leggja rækt við bandarískan ruðning hér á landi.“

– Nicholas Woods

Hér fyrir neðan er svo myndband frá leikvangi Minnesota Vikings þar sem aðdáendur liðsins útfæra Víkingaklappið fræga á sinn eigin hátt; „Hú-ið“ fær að víkja fyrir „Skol.“