Langar helst „að vinna með Marteini (Bngrboy) og Birni.“ – Arnar Freyr

Viðtöl

Það var mikið fjör síðastliðið laugardagskvöld þegar bandaríski rapparinn Young Thug steig á svið ásamt einvalaliði íslenskra rappara í Laugardalshöllinni. 

Norðlenska tvíeykið Úlfur Úlfur tróð að sjálfsögðu upp og náði SKE tali á Arnari
Frey Frostasyni eftir tónleikana og forvitnaðist nánar um skoðun rapparans á
Young Thug, stöðu íslensku rappsenunnar og hvar hann sæi fyrir sér að vera
staddur eftir áratug. 

SKE spurðist einnig fyrir um hvaða tvo íslenska listamenn rapparinn myndi helst vilja starfa með ef valið væri hans. 

„Mig langar – og þetta er kannski alger klisja – að vinna með Marteini (Bngrboy) og ég væri til í að rappa með Birni.“

– Arnar Freyr Frostason (Úlfur Úlfur)

Svarið kemur kannski ekki á óvart í ljósi iðjusemi þessara tveggja einstaklinga innan íslensku rappsenunnar í ár. 

Rapparinn Birnir hefur verið iðinn við kolann síðastliðna mánuði en ásamt því að hafa gefið út lögin Ekki switcha og Sama tíma eru margir á því að hann skari fram úr í laginu Joey Cypher sem kom út í júní (hér fyrir neðan má sjá Hnetusmjör, Birnir og Aron Can flytja lagið í beinni í Kronik). 

Bngrboy (Marteinn!) hefur einnig verið vinnugefinn í ár en ásamt því að hafa unnið með röppurum á borð við Joey Christ og Alviu á hann einnig heiðurinn að bíti lagsins Kalla mig hvað? eftir Reykjavíkurdætur. Þar að auki gaf hann út fjögur lög á Soundcloud fyrir rúmum fimm mánuðum síðan. 

SKE vonast innilega eftir því að samstarf Bngrboy, Birnis og Arnars Freys verði að veruleika.