Nicki Minaj svarar Remy Ma fullum hálsi í nýju lagi

Tónlistt

Rapptónlist væri ekki rapptónlist án illdeilna: Biggie Smalls og Tupac, Jay-Z og Nas, 50 Cent og The Game, o.s.frv. Nýjasta orrustan í stríðsögu rapps vestan hafs er, hins vegar, illdeila rapparanna Nicki Minaj og Remy Ma sem hafa eldað grátt silfur saman undanfarið.

Ágreiningur Minaj og Remy Ma á rætur sínar að rekja til ársins 2007 þegar hin fyrrnefnda gaf út mixteipið Playtime Is Over þar sem hún virtist skjóta nokkrum léttum skotum á Remy Ma í lagi sem er oft kallað Dirty Money. Síðan þá hefur ýmislegt gengið á en illdeilur þeirra náðu ákveðnu hámarki með útgáfu lagsins Shether (sem jafnframt byggist á frægu diss-lagi sem Nas tileinkaði Jay-Z árið 2001, Ether) í lok febrúar á þessu ári þar sem Remy Ma þótti fara illa með Minaj með grófum neðanbeltisskotum. Í kjölfarið gaf Remy Ma svo út annað diss-lag, Another One, sem þótti ekki jafn beitt. 

Í dag svaraði Nicki Minaj loks kollega sínum Remy Ma með laginu No Frauds (hægt er að hlýða á lagið hér fyrir ofan) en rappararnir Lil Wayne og Drake koma einnig fram í laginu. Sitt sýnist hverjum; aðdáendur Minaj virðast vera sannfærðir um að Minaj standi upp úr sem sigurvegarinn en öfugt gildir fyrir aðdáendur Remy Ma.