Noisey rýnir í Sónar Reykjavík 2018: „JóiPé og Króli stóðu upp úr.“

Fréttir

Í gær (10. apríl) birti vefsíðan Noisey—tónlistarhluti miðilsins Vice—grein eftir blaðakonuna Leslie Horn þar sem hún deilir reynslu sinni af tónlistarhátíðinni Sónar Reykjavík 2018 með lesendum. Hátíðin fór fram fyrir rúmum mánuði síðan, dagana 17. til 18. mars.

Nánar: https://noisey.vice.com/en_us/...

Af skrifum Horn að dæma var upplifun hennar góð en á meðan á hátíðinni stóð var hún barnshafandi (og er það væntanlega enn)—komin fimm mánuði á leið. Í greininni segir hún að stemningin hafi verið góð: „áhorfendahópurinn var lítill og rólegur ... það var engin ein hljómsveit svo stór eða svo vinsæl að hún gæti, ein og sér, sannfært mann til þess að bóka flug til Íslands. Ég velti því fyrir mér hvort að aðstandendur hátíðarinnar hefðu eytt um efni fram í fyrra, með því að bóka stór nöfn á borð við Fatboy Slim, Sleigh Bells og De La Soul.“

Einnig var Horn ánægð með hátt hlutfall Íslendinga á Sónar Reykjavík: Fjöldi venjulegs fólks sótti hátíðina. Ég tók ekki eftir mörgum Bandaríkjamönnum, sem gerði þetta einhvern veginn eðlilegra—frekar en einhverja túristagildru. Og svo er það annað. Á meðan að við fylgdumst með tónleikum Jlin stóð kona við hliðina á okkur með gamaldags grímu. Það var eins og að gríman væri búin til úr kaffisíum. Konan leit út eins og Björk. Ég hugsaði þó með sjálfri mér að það yrði nú of mikið að fara til Íslands og rekast á Björk. En allt kom fyrir ekki: Konan sem leit út eins og Björk var, jú, Björk, sem er kannski ekki svo óeðlilegt: Hér á hún heima! Það gaf hátíðinni ákveðna vigt, vitandi að Björk væri meðal gesta.“

Hápunktur helgarinnar, að mati Horn, voru þó tónleikar íslenska tvíeykisins JóiPé x Króli:

„Einnig uppgötvaði ég tvíeykið JóiPé x Króli, en um ræðir tvo íslenska rappara á táningsaldri—en þeir stóðu upp úr á hátíðinni. Ég átti erfitt með að skilja þá, þar sem þeir töluðu einvörðungu íslensku, en þeir fluttu tónlist sína af mikilli innlifun og krakkarnir dönsuðu og sungu með öllum lögunum (ég mæli sérstaklega með laginu "O Shit").“

– Leslie Horn

Í niðurlagi greinarinnar segir Horn að þó svo að Sónar Reykjavík 2018 hafi ekki verið á pari við fyrri upplifanir hennar á hátíðinni, þar sem hún—í ljósi þungunar—var edrú, og þar sem engin hljómsveit sem henni dauðlangaði að sjá steig á svið. Var þetta þó upphaf nýs tímabils í lífi hennar—og velti hún því fyrir sér hvort að ófætt barn hennar myndi einhvern tímann trúa hátterni móður sinnar á meðan á óléttunni stóð.