Nokkrar lygilegar staðreyndir um Jay-Z

Áhugavert

Í nýjasta þætti spjallþáttarins My Next Guest Needs No Introduction, sem reynsluboltinn Dave Letterman stýrir á streymisveitunni Netflix, var rapparinn og viðskiptajöfurinn Jay-Z gestur þáttarins—en ýmislegt áhugavert kom fram í viðtalinu. 

Jay-Z hefur löngum verið talinn einn besti or merkilegasti rapppari sögunnar; í grein sem kom út á Rolling Stone árið 2010, til dæmis, situr rapparinn í 88. sæti yfir besta tónlistarfólk sögunnar, óháð stefnu (greinina ritar Ezra Koenig, söngvari hljómsveitarinnar Vampire Weekend). 

Nýverið tilkynnti Jay-Z að hann hugðist halda í tónleikaferðalag ásamt eiginkonu sinni, Beyoncé, en í tilefni þess tók SKE saman nokkrar lygilegar staðreyndir um rapparann rómaða.

1. Jay-Z bjó í Lundúnum í lok níunda áratugarins

Líkt og fram kom í fyrrnefndu viðtali við Dave Letterman bjó Jay-Z í London stutta hríð. Ástæðan á bak við dvölina var platan Word to the Jaz sem rapparinn Jaz-O hljóðritaði þar á bæ en Jay-Z slóst í för honum til halds og trausts. Því er oft haldið fram að lagið Hawaiin Sophie, sem er að finna á þeirri plötu, sé fyrsta lagið þar sem Jay-Z kemur við sögu—en það er hins vegar ekki rétt. Fyrsta lag Jay-Z mun heita Get Busy og gaf rapparinn það út í samstarfi við Jaz-O og þá sem tvíeykið High Potent.

2. Jay-Z er ástæðan fyrir því að Biggie hætti að rita erindi sín niður á blað

Í viðtali við VladTV segir plötusnúðurinn og pródúsentinn Clark Kent frá  því þegar goðsögnin Biggie Smalls og Jay-Z störfuðu saman fyrst. Upprunalega átti lagið Brooklyn's Finest einungis að vera samstarf á milli Jay-Z og Clark Kent, þangað til að hinn síðarnefndi, sem pródúsent lagsins, stakk upp á því að fá Biggie til liðs við þá. Biggie var fenginn inn í hljóðverið til þess að hlýða á lagið, sem var nánast fullklárað (Jay-Z var búinn að semja þrjú erindi)—er Jay-Z ákveður að semja texta sinn aftur: „Jay bað mig um að spila taktinn í u.þ.b. 20 mínútur. Svo gengur hann inn í klefann og tekur erindin upp á ný. Svo þegar hann stígur út spyr hann Biggie: ,Jæja, ertu tilbúinn?' Biggie skildi þetta ekki. Ég sagði við hann: ,Ég var búinn að segja þér það, hann skrifar aldrei rímurnar sínar niður.' Og eftir það ákvað Biggie að gera slíkt hið sama: ,Ég ætla ekki að vera náunginn sem skrifar allt niður þegar Jay-Z getur gert þetta á þennan veg,'“ sagði Biggie.

3. Sjötta hljóðversplata Jay-Z, "The Blueprint," kom út 11. september 2001

The Blueprint kom út viku fyrr en upprunalega var gert ráð fyrir. Með því að flýta útgáfunni reyndu aðstandendur að koma í veg fyrir ólöglega dreifingu plötunnar. Gerðu flestir ráð fyrir dræmri sölu í ljósi hryðjuverkanna en svo fór ekki; platan seldist í yfir 420.000 eintökum fyrstu vikuna og litu margir New York-búar á plötuna sem ákveðna huggun. Þess má einnig geta að þennan dag var Jay-Z staddur í Los Angeles við tökur á myndbandinu Girls, Girls, Girls. Sagðist hann ekki hafa trúað eigin augum þegar myndband af ódæðisverkinu var sýnt í sjónvarpinu: „Þetta var líkt og sena úr kvikmynd um harmageddon.“ 

4. Jay-Z er mikill aðdáandi gríska ljóðskáldsins Homer

Í viðtali við Oprah Winfrey fyrir vefsíðuna www.oprah.com segir Jay-Z að hann hafi miklar mætur á Ódysseifskviðu Hómers: „Ég átti svolítið erfitt með að klára ljóðið, en hrynjandinn er svo fagur. Ég týndi mér gjörsamlega í lestrinum; hvernig Ódysseifur stritar til þess að snúa aftur til síns heima og hversu heitt hann þráir að sjá sína heittelskaða konu, sem bíður eftir honum. Það er draumur, þesskonar styrkur, ást, tryggð.“

5. Jay-Z laug að Charles Strouse, tónskáldinu á bak við lagið "It's the Hard Knock Life" úr söngleiknum "Annie," til þess að fá leyfi fyrir því að gefa út eigin útgáfu á laginu ("Hard Knock Life")

Í viðtali við blaðakonuna Terry Gross hjá NPR árið 2010 ræðir Jay-Z sjálfsævisöguna Decoded sem kom út árið 2010. Í viðtalinu spyr Gross nánar út í tilurð lagsins Hard Knock Life, sem notast við lagabút úr laginu It's the Hard Knock Life eftir tónskáldið Charles Strouse: 

Gross: „Þú laugst því að honum að þú hafir tekið þátt í ritkeppni þar sem þú segist hafa séð söngleikinn Annie á Broadway og að sú upplifun hafi haft mikil áhrif á þig. En þú sást aldrei söngleikinn á Broadway?“ 

Jay-Z: „Einmitt.“

Gross: „... og þú sagðist hafa unnið keppnina ...“ 

Jay-Z: „Ég ætlaði nú ekki að segja frá þessu í smáatriðum. Ég var að reyna, þú veist ...“

(Hlátur.)

Gross: „Með öðrum orðum þá laugstu aðeins til þess að fá leyfi.“ 

Jay-Z: „Já, í rauninni, þetta var slæm lygi af góðri ástæðu.“

Nánar: https://www.npr.org/templates/...