Ný Nas plata í vændum—Kanye smíðar taktana: „Ég lofaði Obama.“

Fréttir

Júní verður góður mánuður fyrir aðdáendur tónlistarmannsins Kanye West sem og aðdáendur Hip Hop tónlistar almennt—þ.e.a.s. ef eitthvað er að marka tilkynningar West á Twitter undanfarna daga. 

Í síðustu viku (19. apríl) tilkynnti West aðdáendum sínum að hann hugðist gefa út nýja plötu næstkomandi 1. júní (platan inniheldur sjö lög). Í kjölfar hennar gæfi hann síðan út aðra plötu sem yrði unnin í samstarfi við rapparann Kid Cudi og þá undir yfirskriftinni Kids See Ghost. Að lokum ljóstraði hann upp um útgáfudag tveggja annarra platna: þann 25. maí gæfi rapparinn Pusha T út nýja plötu og þann 22. júní gæfi leik- og tónlistarkonan Teyana Taylor út nýja plötu, að hans sögn. 

Í gær (22. apríl) ítrekaði West fyrrnefndar útgáfur og áréttaði að hann myndi pródúsera allar plöturnar. 

Að lokum bætti hann því við að ný plata eftir rapparann Nas kæmi út 15. júní og ýjaði hann þar með að því að taktsmíð plötunnar yrði í hans höndum. 

Líkt og fjölmiðlar vestan hafs hafa rifjað upp var það í byrjun árs 2016 sem Kanye West sagðist hafa lofað fyrrum forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, að hann myndi pródúsera taktana á næstu plötu Nas. 

Svo virðist sem West ætli að standa við stóru orðin. 

Nánar: http://www.vulture.com/2018/04...

Hér fyrir neðan er svo lagið Still Dreamin' sem er að finna á plötunni Hip Hop Is Dead eftir rapparann Nas. Lagið pródúseraði Kanye West.