Ný plata frá Kanye West og Kid Cudi á morgun: "Kids See Ghosts"

Fréttir

Útgáfudagur:

Á morgun (8. júní) hyggjast rappararnir Kanye West og Kid Cudi gefa út hljóðversplötu en um ræðir nýtt samstarfsverkefni sem ber titilinn Kids See Ghosts. 

Saga samstarfsins:

Samstarf rapparanna á rætur að rekja til ársins 2008 þegar Kid Cudi ritaði undir plötusamning hjá útgáfufyrirtæki Kanye West, G.O.O.D. Music. Kid Cudi spilaði til dæmis stóra rullu við gerð plötunnar 808s and Heartbreaks og hefur komið við sögu í lögum á borð við Father Stretch My Hands, Pt. 1; All of the Lights; og nú síðast í laginu Ghost Town (sem stóð upp úr, að margra mati, af plötunni Ye sem Kanye West gaf út fyrir stuttu). 


Lengd plötunnar:

Ef eitthvað er að marka tíst Kanye West frá því í byrjun júní mun platan innihalda sjö lög (sjá hér að neðan) en það rímar jafnframt við síðustu tvær útgáfur á vegum G.O.O.D. Music; plöturnar Ye eftir Kanye West og Daytona eftir Pusha T geyma hvor um sig sjö lög. 

1. Feel the Love
2. Kids See Ghosts
3. 4th Dimension
4. (ónefnt)
5. Cudi Montage
6. Devils Watching
7. Reborn

Plötuumslagið:

Plötuumslagið hannaði japanski listamaðurinn Takashi Murakami. 

Gestir:

Óvíst er hvort að aðrir tónlistarmenn komi við sögu á plötunni en ýmsar getgátur hafa verið á lofti. Blaðamaður High Snobiety bendir til dæmis á að tónlistarmenn á borð við Mos Def, Talib Kweli, Pi'erre Bourne og Travis Scott lögðu leið sína til Jackson Hole, Wyoming—þar sem platan var hljóðrituð—í apríl. Í ljósi þess þykir fyrrnefndum blaðamanni ekki ólíklegt að einhverjir þeirra komi við sögu. 

Hlustunarpartí:

Áhugasamir geta hlýtt á plötuna áður en hún er gefin út með aðstoð WAV appsins. Appið gerir notendum kleift að streyma hlustunarpartí Kanye West og Kid Cudi sem fer fram í Kaliforníu klukkan 20:00 í kvöld (klukkan 3 aðfaranótt föstudags á íslenskum tíma). 

Nánar: https://www.highsnobiety.com/p...