Ný stikla úr þriðju seríu Stranger Things (myndband)

Fréttir

Í dag (16. júlí) leit fyrsta stiklan úr þriðju seríu sjónvarpsþáttarins Stranger Things dagsins ljós (sjá hér að ofan) en um er að ræða svokallaðan teaser trailer í formi gamallar auglýsingar. Eins og sjá má er hér á ferðinni auglýsing fyrir nýja verslunarmiðstöð sem opnar næsta sumar í Hawkins, Indiana—sögusviði sjónvarpsseríunnar (á níunda áratugnum). 

Í myndbandinu bregður leikarinn Joe Keery fyrir en hann fer með hlutverk Steve Harrington í þáttunum. Þá getur einnig að líta leikkonuna Maya Hawke, sem fer með nýtt hlutverk í seríunni (hún leikur karakterinn Robin). 

Netflix hefur enn ekki tilkynnt útgáfudag seríunnar formlega en út frá stiklunni er hægt að draga þá ályktun að þriðja serían sé væntanleg næsta sumar ("the mall is coming next summer"). Hér fyrir neðan má svo sjá stutt myndbrot frá Netflix en síðastliðinn 20. apríl komu leikarar Stranger Things saman á ný og þá í því augnamiði að skjóta fyrrnefnda þriðju seríu. 

Nánar: https://variety.com/2018/tv/ne...