Nýtt myndband frá Daða Frey: „Skiptir ekki máli“

Fréttir

Um helgina (7. júlí) gaf tónlistarmaðurinn Daði Freyr Pétursson út myndband við lagið Skiptir ekki máli (sjá hér að ofan). Er þetta fyrsta myndbandið sem Daði Freyr gefur út frá útgáfu myndbandsins við lagið Næsta skref; akkúrat ár, upp á dag, leið á milli útgáfu þessara tveggja myndbanda.

Í samtali við SKE um helgina lýsti Daði Freyr myndbandinu með eftirfarandi orðum:

„Ég og Árný Fjóla, kærastan mín, stofnuðum nýverið lista- og framleiðslufyrirtækið Samlist. Þetta myndband er í rauninni fyrsta verkefnið sem við gerum undir því nafni. Ég leikstýrði myndbandinu og Árný sá um kvikmyndatöku, ásamt pabba mínum Pétri Einarssyni. Myndbandið var tekið upp í Norðurgarði, sem er sveitabær í eigu fjölskyldu Árnýjar. Þau eru með kúabú, svo kýrnar sem fara með stórt hlutverk í myndbandinu eru þeirra. Ég klippti síðan myndbandið sjálfur.“

– Daði Freyr Pétursson

Hér fyrir neðan má svo sjá viðtal SKE við Daða Frey frá því í lok júní en eins og fram kemur í viðtalinu hyggst Daði Freyr gefa út nýja plötu í byrjun næsta árs (þ.e.a.s. ef allt gengur að óskum).