Nýtt myndband með MIMRA: „Lærði lagið aftur á bak á einni viku.“

Tónlist

SKE: „Að horfa á myndband er góð skemmtun.“ Svo sagði atvinnuröddin Gylfi Pálsson einhvern tímann á níunda áratugnum, áður en þessi sama hljóðfagra rödd las upp aldurstakmark viðeigandi bíómynda í frægri viðvörunar-kvikmynd Kvikmyndaeftirliti ríkisins. Segja má að þessi ódauðlegu orð eigi enn við enn þann daginn í dag, en nýverið sendi tónlistarkonan MIMRA (María Magnúsdóttir) frá sér myndband við lagið Play With Fire; að leiða sjónum að fyrrgreindu myndbandi er ánægjulegt (sjá hér fyrir neðan) og lagði söngkonan ýmislegt á sig til þess að tryggja skemmtun áhorfanda. Í tilefni útgáfu myndbandsins heyrði SKE í MIMRU og spurði hana nánar út í lagið, myndbandið og uppáhalds rapplögin: Góða skemmtun.

SKE: Til hamingju með myndbandið, það er stórgott. Myndbandið virðist vera skotið aftur á bak – er það rétt?

MIMRA: Takk kærlega og já, það er rétt! Birta og Guðný í Andvari Productions framleiddu myndbandið fyrir mig. Mjög fljótlega í ferlinu fengum við hugmyndina um að gera svona aftur á bak vídjó sem setti pressuna á mig að læra lagið aftur á bak á bara einni viku. Svona eins og maður gerir! Það var þvílík áskorun svo ég varð að vera minn eigin raddþjálfi alla leið. Á tökudag gekk ég svo aftur á bak og söng lagið aftur á bak sem var önnur áskorun. En útkoman er alveg þess virði! Einföld hugmynd sem lítur út eins og fínasta tæknibrella.

SKE: Varstu nokkuð innblásin af myndbandinu Drop eftir Pharcyde?

Algjörlega, enda geggjað myndband. Pharcyde vídjóið er „legend“ en alls ekki eina „reverse“ myndbandið þarna úti. Þeir hins vegar lögðu það á sig eins og ég að læra textann aftur á bak ... sem bara getur ekki verið einfalt með rapplag og svona sjúklega mikinn texta!

SKE: Lagið heitir Play With Fire. Hvað geturðu sagt okkur um hugmyndina á bakvið lagið?

Hugmyndin bakvið lagið er hrein og bein samskiptaangist. Eftir á að hyggja tel ég best í stöðunni að selja Tinder lagið til að tryggja mér heimsyfirráð. Held það væri eina vitið.

SKE: Fyrir þremur mánuðum gafst þú út lagið Söngur Valkyrjunnar, en það var sungið á íslensku. Hvers vegna ákvaðst þú að syngja á ensku í þetta skiptið?

Ég sem lögin mín yfirleitt á ensku en þó stöku sinnum á íslensku svo það er kannski meiri tilviljun að fyrsta lagið frá mér var á ástkæra ylhýra. Fer svolítið eftir innblæstri. Finnst til dæmis að lag um Valkyrju í 5/4 eigi algjörlega heima á íslensku.

SKE: Eru einhverjir tónleikar á dagskrá – eða plata?

Já, núna á fimmtudagskvöld ætla ég að koma fram á Kaffi Vínyl um níu leytið. Þessa dagana kem ég fram ein á sviði með hljómborð, tölvu og pedala. Ég er hér um bil tilbúin með plötu sem ég ætla að koma frá mér seinna á árinu. Það verður eitthvað. Get ekki beðið!

SKE: Þann 8. mars var Alþjóðlegur barráttudagur kvenna haldinn. Gerðirðu eitthvað í tilefni dagsins?

Hugsaði um konurnar í mínu lífi sem hafa haft áhrif á mig og hvatt mig áfram.

SKE: Uppáhalds íslenska OG erlenda rapplag?

Uppáhalds íslenska rapplagið núna er Tíminn tapar takti með Reykjavíkjurdætrum því textinn er svo dásamlega berskjaldaður og alvöru. Líka Reykjavík með Gauta. Get ekki gert upp á milli Keep Ya Head Up með Tupac og The Blacker the Berry með Kendrick Lamar. Fæ ekki nóg af hvorugu.

SKE: Ef við kæmum stóru auglýsingaskilti fyrir í miðbæ Reykjavíkur og þú mættir velja skilaboðin á skiltinu – hvaða skilaboð yrðu fyrir valinu?

Vá, get ekki svarað þessu, alltof mikil ábyrgð. Allavega ekki eitthvað um Ísland og Evrópusambandið.

SKE: Eitthvað að lokum?

Kíkið á myndbandið mitt og njótið lífsins. 

(SKE þakkar MIMRU kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til þess að láta sjá sig á tónleikum MIMRU á Kaffi Vinýl á fimmtudaginn. Hér fyrir neðan eru svo töffararnir í Reykjavíkurdætrum, goðsögnin Tupac Shakur og hinn íslenski Alan Rickman: Gylfi Pálsson.)