Offset úr Migos hélt að hann væri í Finnlandi í gær (myndband)

Myndbönd

Í gær (16. ágúst) steig bandaríska þríeykið Migos á svið í Laugardalshöllinni og var upphitun í höndum Joey Christ, CYBER og XXX Rottweiler hunda. Stemningin í Höllinni var góð og verður myndbrot af tónleikum Migos birt á ske.is von bráðar. 

Áður en hljómsveitin fór á svið kíktu meðlimir sveitarinnar í Bláa lónið og birtu myndband af ferð sinni á Snapchat (sjá hér fyrir ofan). Myndbandið vakti lukku á meðal notenda Twitter og þá sérstaklega atvikið þegar Offset misstígur sig í lóninu (01:14).

„Ætlum við virkilega ekki að segja neitt um þá staðreynd að Offset féll næstum til bana í lóninu?“ spurði einn notandi Twitter. 

Heppnin var greinilega ekki með Offset á Íslandi en eftir ferðina til Bláa lónsins tók hann myndband af sjálfum sér þar sem hann situr á svölum á Hverfisgötunni (að því virðist á 101 Hotel) og fagnar lífinu (ca. 02:00): 

„Hér erum við í Finnlandi. Að lifa lífinu ...“ 

– Offset

Stuttu síðar áttar hann sig þó á rangmælum sínum og leiðréttir mistökin: „Nei! Við erum á Íslandi! Minn feill.“

Ekki er Offset þó fyrsti rapparinn til þess að ruglast á löndum en rapparinn Game missti eitt sinn af tónleikum í Nýja Sjálandi eftir að hafa flogið til Ástralíu.

Nánar: https://bossip.com/1285243/you...

Hér fyrir neðan má svo sjá viðtal við Migos í þættinum Everyday Struggle; ekki munaði miklu að slagsmál brutust út eftir að DJ Akademiks forvitnaðist um fjarveru Takeoff í Bad and Boujee.