„Tók þrjú ár að smíða plötuna“—Pétur Eggerz gefur út stuttskífuna „1EGGERZ“

Fréttir

Í sumar gaf tónlistarmaðurinn Pétur Eggerz Pétursson út sína fyrstu EP plötu. Platan ber titilinn 1EGGERZ en samkvæmt tónlistarmanninum sjálfum er trúlega auðveldast að hagnýta ensku orðin alternative rap / R&B til þess að lýsa hljóðheimi plötunnar, sem ber þó einnig rafrænan blæ. 

1EGGERZ geymir sjö lög og koma þrír gestasöngvarar við sögu á plötunni (sjá hér að neðan). 


Að sögn Péturs var platan þrjú ár í vinnslu og sá hann sjálfur um allar tónsmíðar á plötunni. Hljóðblöndun var í höndum Bjarka Ómarssonar.

Aðspurður út í útkomu plötunnar segist Pétur vera afar ánægður:

„Mér þykir mjög vænt um þessa plötu. Hún er uppfull af persónulegum tengingum, en ég vil þó leyfa hverjum og einum að mynda sínar eigin tengingar—frekar en að fara í saumana á mínum eigin.”

– Pétur Eggerz

Pétur Eggerz er fæddur í Reykjavík en ólst upp, að mestu, í Breiðholtinu. Á sínum bernskuárum var hann, að eigin sögn, duglegur að koma sér í vandræði og „óæskilegar aðstæður. Reyndist tónlistin þá bjargvættur (sem og grafíkin) og hjálpaði honum að viðhalda aga og festu. Lauk Pétur námi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti á listabraut en þaðan lá leiðin til Arts University Bournemouth, þar sem Pétur nam hreyfimyndaframleiðslu (animation production) og lauk BA gráðu aðeins 21 árs gamall. Starfar Pétur sem auglýsingaframleiðandi hjá HN Markaðssamskiptum í dag.

Hér fyrir neðan eru svo lögin Hendur Upp Í loft og Ég er Eggerz sem Pétur gaf út árið 2014.