Pólsk leikkona í gervi Bjarkar í umdeildum sjónvarpsþætti

Fréttir

Sjónvarpsþátturinn Your Face Sounds Familiar ("Tu cara me suena") fór fyrst í loftið á spænsku sjónvarpsstöðinni Antena 3 árið 2011. Þátturinn er hugarafkvæmi Antena 3 og hollenska fjölmiðlafyrirtækisins Endemol en í þættinum bregða dægurhetjur sér í gervi þekkts tónlistarfólks og keppast um að flytja lög þeirra á sem trúverðugastan hátt.

Your Face Sounds Familiar hóf göngu sína í Póllandi árið 2014 ("Towja twarz brzmmi znajomo") og er níunda sería þáttarins í fullum gangi um þessar mundir. Meðal keppanda í ár er pólska leikkonan og dansarinn Izabella Miko en hún er hvað þekktust fyrir leik sinn í myndböndunum Mr. Bright Side og Miss Atomic Bomb eftir hljómsveitina The Killers (sjá neðst).

Athygli vekur að í fjórða þætti seríunnar brá Izabella Miko sér í gervi íslensku söngkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur og söng lagið Venus as a Boy (sjá hér að ofan) af mikilli innlifun.

Your Face Sounds Familiar er umdeildur fyrir þær sakir að hvítir keppendur hafa endrum og eins komið fram í gervi þeldökks fólks með því að mála sig svarta í framan ("blackface"). Til dæmis kom söngkonan Natalia Krakowiak—keppinautur Izabella Miko—fram í fyrsta þætti seríunnar sem Nicki Minaj og söngvarinn Janek Traczyk brá sér í gervi bandaríska söngvarans John Legend í öðrum þætti seríunnar með fyrrnefndum hætti. 

Í lok árs 2017 fór pistlahöfundur á síðunni OH NO THEY DIDN'T! nánar yfir fleiri dæmi um "blackface" í þáttunum en fyrirbærið á sér langa og miður fallega sögu. 

Nánar: https://ohnotheydidnt.livejournal.com/108734773.html

Í því samhengi er vert að benda á umfjöllun blaðamannsins Kevin Young um fyrirbærið "blackface" á New Yorker og á pistil blaðamannsins Dave Holmes á Esquire en þar er fyrirbrigðið sett í sögulegt samhengi.

Nánar: https://www.newyorker.com/book...

Nánar: https://www.esquire.com/lifest...