Secret Solstice 2018 upphitun #1—Stormzy

Fréttir

Næstkomandi 21. júní hefst tónlistarhátíðin Secret Solstice í Laugardalnum. Er þetta í fimmta skiptið sem hátíðin fer fram og að vanda mun glás af hæfileikaríku tónlistarfólki stíga á svið. Meðal þeirra sem koma fram er breski rapparinn Stormzy (sem einnig spilaði á hátíðinni árið 2015) en til þess að hita upp fyrir hátíðina tók SKE saman nokkrar staðreyndir um þessa mikilsvirtu Grime goðsögn.

#1 Stormzy heitir réttu nafni Michael Ebenazer Kwadjo Omari Owuo Jr. 

Stormzy fæddist þann 26. júlí 1993 og er því 25 ára gamall. Hann ólst upp í Thornton Heath hverfinu í Lundúnum og er fjölskylda hans af ganískum uppruna. Stormzy byrjaði að rappa aðeins 11 ára gamall og þó svo að hann hafi verið ódæll á sínum yngri árum vegnaði honum vel í námi. Gælunöfn Stormzy eru Big Mike, The Problem, Stiff Chocolate og Wicked Skengman.

#2 Vinsælasta lag Stormzy er "Shut Up"

Myndbandið við lagið kom út 15. maí 2015 en um ræðir í raun freestyle (ekki í þeim skilningi orðsins að Stormzy sé að semja rímur af munni fram, heldur rappar hann áðursamdar línur yfir gamalt bít) þar sem Stormzy rappar yfir bítið Functions on the Low eftir taktsmiðinn XTC. Í þessum rituðu orðum hafa netverjar skoðað myndbandið rúmlega 77 milljón sinnum á Youtube. Lagið kom formlega út í lok árs 2015 og varð það fyrsta freestyle-ið til þess að rata inn á breska vinsældalistann. Geri aðrir betur. 

Nánar: http://www.nme.com/news/music/...

#3 Stormzy og Nadia Rose eru frændsystkini

Breski rapparinn Nadia Rose, sem kom meðal annars fram á Sónar Reykjavík 2018, er frænka hans Stormzy. Í viðtali við Go London í fyrra lét Nadia Rose þau ummæli falla að hún og Stormzy hafa alltaf verið náin: „Fjölskyldur okkar bjuggu lengi vel á sömu götunni og á sínum tíma sömdum við meira að segja nokkur lög saman. Stefnan er að gefa út meira efni seinna.“

#4 Stormzy lék Yardz í kvikmyndinni "Brotherhood"

Brotherhood er þriðja og síðasta myndin í þríleik breska leikstjórans Noel Clarke um bófalífið á götum Lundúna. Stormzy leikur karakterinn Yardz í myndinni og þykir standa sig með prýði.

#5 Stormzy var eitt sinn ruglað saman við fótboltamanninn Romelu Lukaku af blaðamanni The Evening Herald

Stormzy er 1.96 sentimetrar á hæð: tveimur sentimetrum lægri en Michael Jordan og jafnhár og körfuboltamaðurinn Ray Allen. Í fyrrasumar var rapparanum ruglað saman við belgíska framherjann Romelu Lukaku en mynd af Stormzy birtist í stað mynd af Lukaku í blaðinu The Evening Herald. Stormzy var ekki skemmt. Þess má þó geta að Stormzy er mikill aðdáandi Manchester United og kom hann meðal annars fram í Adidas-auglýsingu ásamt Paul Pogba (sjá hér að neðan). Í laginu vísar Stormzy í tónleika sína á Secret Solstice hátíðinni árið 2015: "Shut down Iceland."

Nánar: http://www.goal.com/en/news/st...

#6 Stormzy var fyrsti rapparinn án plötusamnings til þess að koma fram í þættinum "Later" hjá Jools Holland

Þátturinn Later sem breski tónlistar- og sjónvarpsmaðurinn Julian "Jools" Holland stýrir hefur lengi verið í uppáhaldi meðal tónlistaraðdáenda víðs vegar um heiminn. Fjölmargt þekkt listafólk hefur komið fram í þættinum, þar á meðal Nick Cave, Leonard Cohen, Portishead, Björk og fleiri. Árið 2014 varð Stormzy fyrsti Grime rapparinn án plötusamnings til þess að stíga á svið í þættinum. Flutti hann lagið Not That Deep og stal senunni. 

#7 Stormzy hefur gefið út eina plötu, "Gang Signs & Prayer" (að stuttskífunni "Dreamers Disease" undanskilinni). Platan kom út í febrúar 2017 og varð fyrsta Grime platan til þess að klifra upp í 1. sæti breska vinsældalistans.   

Platan geymir 16 lög og skartar meðal annars rapparanum J Hus sem einnig kemur fram á Secret Solstice í ár.


Hér fyrir neðan eru svo fleiri góð lög með Stormzy.