„Afsakið hlé var áhættan okkar.“—SKE spjallar við Króla (myndband)

Í bílnum

Nýverið fór SKE á rúntinn með tónlistarmanninum Króla (Kristni Óla Haraldssyni) en rúnturinn var liður í myndbandsseríunni Í bílnum (sjá hér fyrir ofan) þar sem SKE ræðir við listakonur og menn á ferðinni um götur Reykjavíkur (eða Hafnarfjarðar).

Tilefni rúntsins – ef hægt er að tala um slíkt – var útgáfa plötunnar Afsakið hlé sem tvíeykið JóiPé x Króli gáfu út nú á dögunum.

Líkt og fram kemur í viðtalinu lítur Króli svo á að fyrrnefnd plata hafi verið áhætta:

„Þessi plata sem við vorum að gefa út núna er svolítið áhættan okkar, mín og Jóa ... vegna þess að þetta var mjög persónulegt verkefni. Við slepptum fullt af ,banger' lögum fyrir mun persónulegri lög. Það getur oft verið vafasamt, sérstaklega ef maður er þekktur sem einhver trúður. Það getur verið hættulegt að fara of langt í þá átt—en við fórum alla leið. 17 lög. Þetta er bara saga. Þetta er ,concept' plata.“

– Króli

Hér fyrir neðan er svo myndbandið við lagið Þráhyggja sem JóiPé x Króli gáfu út fyrir stuttu.