Snoop Dogg skýtur trúðinn Trump í nýju myndbandi

Tónlist

Þýski heimspekingurinn og rithöfundurinn Theodor W. Adorno sagði að öll list væri í raun glæpur sem aldrei var framinn. Með orðum sínum gaf hann í skyn að öll list ögraði óbreyttu ástandi og kæmist vart hjá því að vera pólitísk í eðli sínu.

Í gegnum tíðina hafa margir listamenn beitt list sinni í þágu pólitískra mótmæla. Í því samhengi má nefna málverkið Guernica eftir Picasso; ljósmyndaseríuna Study of Perspective eftir Ai Weiwei; og tónleika rússnesku hljómsveitarinnar Pussy Riot árið 2012 í dómkirkjunni í Moskvu (http://www.widewalls.ch/protes...)

Bandarískir rapparar hafa einnig barist gegn óréttlæti í heimalandi sínu með beittum textum og lifandi lýsingum á aðstæðum þeirra sem minna mega sín. Tupac mótmælti til dæmis stríðinu, svokölluðu, gegn eiturlyfjum (the war on drugs), N.W.A. talaði gegn ofbeldi lögreglumanna og Killer Mike hefur lengi gagnrýnt heimsveldisstefnu bandaríska ríkisins. 

Sunnudaginn 12. mars rataði nýtt myndband eftir rapparann Snoop Dogg inn á 
Youtube sem væri vel hægt að flokka sem pólitíska list. Um ræðir myndband við 
endurhljóðblandaða útgáfu af laginu Lavender eftir Kaytranada og BadBadNotGood.

Myndbandið gerist í heimi trúða og er það leikarinn Michael Rapaport sem fer með aðalhlutverkið. Rapaport leikur alþýðlegan heimilisfaðir sem, á leið sinni í vinnuna, er skotinn til bana af lögreglumanni á meðan óbreyttur borgari tekur atvikið upp á símann og hleður því upp á ClownTube; ekki þarf að leita langt til þess að finna hliðstæð atvik í bandarískum raunveruleika.

Jesse Wellens, sem leikstýrði myndbandinu ásamt James DeFine, segist hafa fengið innblástur, að hluta til, af dauða Philandro Castile, sem bandaríska lögreglan skaut til bana síðastliðinn júlí.

Snoop Dogg ræddi einnig hugmyndina á bakvið myndbandið í viðtali við Billboard:

„Ferðabannið sem þessi fjandi (Trump) reyndi að koma á fót; sigur hans í kosningunum; sú staðreynd að lögreglan myrðir og kemst upp með það, að fólk sitji í fangelsi í 20, 30 ár fyrir það eitt að vera með gras í fórum sér, á meðan hvítt fólk auðgast af sölunni ... heimurinn er svo uppfullur af trúðslegum látum að maður gæti skeggrætt þessa vitleysu allan liðlangan daginn, en það eru nokkur mál sem mig langaði að koma á framfæri í myndbandinu: lögreglan, forsetinn og lífið í heild sinni.“

– Snoop Dogg

Seinna í myndbandinu miðar Snoop Dogg dótabyssu á höfuðið á trúðslegum Donald Trump; er trúðurinn ekki fullkomin myndlíking fyrir nýkjörinn forseta Bandaríkjanna: skoplegur í útliti, mállaus og karakter sem mönnum ber ekki að taka alvarlega?