Staðfest: Eddie Murphy snýr aftur til Bandaríkjanna

Fréttir

„Árið 2018 í kvikmyndum snérist að stórum hluta um hið uppdiktaða afríska ríki Wakanda, en framtíðin ber Zamunda í skauti sér,“ ritar blaðamaðurinn Shawn Grant í grein sem birtist á veftímaritinu The Source um helgina. 

Nánar: http://thesource.com/2019/01/1...

Umfjöllunarefni greinarinnar er væntanlegt framhald kvikmyndarinnar Coming to America sem kom út árið 1988. Bandaríski grínistann Eddie Murphy fór með aðalhlutverk myndarinnar.

„Eftir margra ára bið gleður mig að tilkynna ykkur að Coming to America 2 er formlega komin í vinnslu,“ hefur Grant eftir Murphy í grein sinni. „Við smöluðum saman góðu teymi, undir stjórn Craig Brewer sem stóð sig með prýði í Dolemite (væntanleg kvikmynd á Netflix) og hlakka ég mikið til þess að færa ykkur alla þessa sígilda karaktera á stóra skjáinn á ný.“

Líkt og fram kemur á kvikmyndir.is fjallar upprunalega kvikmyndin um afríska prinsinn Akeem:

„Í myndinni leikur Eddie Murphy afrískan prins, sem fer til Bandaríkjanna með þá von í brjósti að finna konu til að giftast. Coming to America er fyrsta myndin af mörgum þar sem Eddie Murphy tekur að sér að leika margar mismunandi persónur. Prinsinn ákveður að hann vilji finna ástina á sínum eigin forsendum og án þess að viðkomandi stúlka viti hver hann í raun og veru er, í von um að hún verði ástfangin af honum sjálfum en ekki vegna stöðu hans í lífinu.“

Samkvæmt ofangreindri grein í The Source mun Akeem snúa aftur til Bandaríkjanna í Coming to America 2 og þá í því augnamiði að vitja týnds sonar síns. Þá er einnig vonast til þess að leikararnir Arsenio Hall og James Earl Jones komi við sögu á ný.