Stjörnuflug Stefáns—tvö ný lög frá Stefáni Elí

Fréttir

Nú á dögunum gaf akureyrski tónlistarmaðurinn Stefán Elí út tvö ný lög, Trip to the Stars og Too Far for You (sjá hér að neðan). Stefán Elí samdi bæði lögin og textann, auk þess að sjá um hljóðfæraleik og upptökur sjálfur. Hljóðblöndun og mastering var í höndum Hauks Pálmasonar. 


Lögin tvö eru upphaf nýs verks þar sem Stefán Elí hyggst gefa út eitt lag í hverjum mánuði, út veturinn, og þá undir yfirskriftinni Break My Heart so I Know:

„Mér líður eins og í þessu lagi, lögum, taki ég tónlistarsköpunina upp á annað þrep, í sambanburði við það efni sem ég hef gefið út fram að þessu. Þetta er mjög tilraunakennt verk og ég var mikið að prófa mig áfram með nýjar pælingar og finnst mér hafa tekist vel, þó að ég segi sjálfur frá.“

– Stefán Elí

Þá hefur Stefán Elí einnig útbúið lagalistann Break My Heart so I Know á Spotify þar sem áhugasamir geta fundið ýmis lög sem eru að heilla hann um þessar mundir.  

„Í hverjum mánuði mun ég svo uppfæra lagalistann og þá bætist við nýtt frumsamið lag. Svo ætla ég bara að halda áfram að spila eins mikið og ég get og hafa gaman.“