SURA gefur út fyrsta sólólagið: „Langpersónulegasta lagið sem ég hef samið.“

Viðtöl

SKE: Stjarneðlisfræðingurinn Carl Sagan, sem er líklega þekktastur sem forsprakki sjónvarpsseríunnar Cosmos, lét mörg fleyg ummæli falla á meðan hann var og hét—þar á meðal: „Það er ekkert sem segir að lögmál alheimsins þurfi að samræmast mannlegum metnaði.“ Einhverra hluta vegna dúkkaði fyrrgreind lína upp í huga undirritaðs við hlustun lagsins "Komast upp" sem plötusnúðurinn og tónlistarkonan SURA gaf út á Spotify rétt eftir miðnætti í dag (um ræðir fyrsta lagið sem SURA gefur út undir eigin formerkjum); fátt veldur jafn mikilli togstreitu í einkalífi manneskjunnar og fyrrnefndur núninguren engin væri listin ef ekki væri fyrir átakið (allir Kæmust upp ef ekki væri fyrir þyngdaraflið). Mótspyrnan mótar manninn. Í tilefni útgáfu lagsins "Komast upp" heyrði SKE í SURU og spurði hana nánar út í lagið, tónlistina og sumarið. Gjörið svo vel.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Þura Stína (Sura)
Ljósmyndir: Saga Sig

SKE: Sæl, SURA. Hvað segirðu gott?

SURA: Ég er bara ótrúlega fersk og spennt fyrir öllu sem er að fara að gerast hjá mér á næstunni.

SKE: Til hamingju með nýja lagið. Hvað geturðu sagt okkur um það?

SURA: Takk svo mikið fyrir það! Komast upp byrjaði að fæðast í desember en ég fékk smá pakka af bítum frá Emil Andra. Ég hlustaði í gegn og heyrði strax að þetta var það sem ég vildi vinna með. Björn Valur hjálpar mér mikið að útsetja og tekur allt upp fyrir mig. Hann vann áfram með bítið og úr varð þetta lag. Við erum að vinna að nokkrum lögum í viðbót í augnablikinu en þetta er langpersónulegasta lagið sem ég hef samið hingað til. Lagið fjallar um það sem hefur verið í gangi hjá mér seinustu misseri. Í stuttu máli: Þegar þér líður eins og þú sért að drukkna og náir ekki að vera til staðar fyrir þá sem þú elskar—á meðan þú ert að gera það sem þú elskar. Ég ætlaði oft að semja um eitthvað annað en ég er alveg frekar opin og með stórar tilfinningar svo ég ákvað að halda því óbreyttu og fannst því mjög viðeigandi að Komast upp yrði fyrsta sólólagið sem ég myndi gefa út.

SKE: Þú samdir lagið í samstarfi við Björn Val og Emil Andra - en ef þú fengir að starfa með hvaða pródúsent sem er (erlendis eða hérlendis) hver yrði fyrir valinu?

SURA: Ég fæ svo mikið út úr því að vinna með fólki. Það eru svo margir sem poppa upp. Við eigum ótrúlega hæfileikaríka pródúsenta á Íslandi og það eru mjög margir sem mér langar að vinna með hér heima.

SKE: Er það ekki rétt að það sé plata á leiðinni?

SURA: Jú, heldur betur. Ég er á fullu að vinna í henni og er ekki með hugann við mikið annað í augnablikinu. Sumarið fer líklega mest megnis í að halda áfram með hana.

SKE: Nýverið deildir þú mynd á Instagram undir yfirskriftinni ,Þeir fljúga mér út.' Hvert fórstu og hvers vegna?

SURA: Ég var að koma heim frá Noregi en við í Reykjavíkurdætrum vorum að spila á einni stærstu jaðarsportshátíð í Evrópu sem heitir X2 Festivalen. Hátíðin er í Volda og þetta voru trylltir tónleikar, geggjuð orka og við fylltum sviðið af áhorfendum í lokin. 

SKE: Þú deildir því einnig á samfélagsmiðlum að þú hafir þeytt skífum í 14 klukkutíma samfleytt á þremur mismunandi stöðum— er það erfiðasta vaktin sem þú hefur staðið?

SURA: Þetta var frekar löng vakt, já  en ég er líka stanslaust að skora á sjálfan mig og það heldur mér við efnið. Mér leiðist svo alltof mikið ef ég er ekki að vinna—en ég er líka bara að vinna við eitthvað sem ég elska. 

SKE: Nú styttist í sumarið (eða er í raun komið nú þegar). Hvernig lítur sumarið út fyrir Suru?

SURA: Sumarið er stórt og ég er svo ótrúlega spennt. Ég er að skjóta tónlistarmyndband núna um helgina við næsta sólólag sem kemur út í maí og heitir Alltaf strax—ásamt því að vera að klára fleiri lög. Ég mun vera með fyrstu stóru SURU tónleikana á Secret Solstice og DJ SURA mun líka taka nokkur sumargigg. Við í CYBER erum að spila á Sónar Barcelona núna í júní og notum sumarið í að klára næstu plötu. Svo eru Reykjavíkurdætur að túra mikið í Evrópu í allt sumar og allskonar skemmtileg sumarverkefni.

SKE: Hver væri titill og undirtitill ævisögu þinnar (t.d. Kynlíf og kókómjólk: Hann þráði hið fyrrnefnda, en var aðallega í hinu síðarnefnda)?

SURA: Ég vil ekkert annað: Bara komast upp. Nei, núna er ég bara að vísa í lagið (haha) en ég veit það ekki; ef það verður til ævisaga um mig, mun ég ekki að skrifa bókina sjálf. 

SKE: Eitthvað að lokum?

SURA: Endilega tjékkið á Komast upp á Spotify. Ég hlakka til að leyfa ykkur að heyra meira. Love, SURA.

(SKE þakkar SURU kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að hlýða á lagið "Komast upp" á Spotify. Eins og Carl Sagan sagði: „Útrýming er reglan, að lifa af er undantekningin.“ (Einnig: Fyrir litlar verur eins og okkur er feiknastærð alheimsins aðeins bærileg sökum ástarinnar.“)