Svar mitt við neikvæði ömmu minnar—Ty Dolla $ign og Jeremih: "The Light"

Fréttir

„Rapptónlist er uppfull af formálausu kynsvalli,“ sagði amma mín, hrjúfum tóni—er bandaríski trapparinn Tyga bullaði eitthvað í bakgrunninum.

„Ef eitthvað er að marka texta trappara í dag,“ bætti hún við „er vegalengdin á milli bóls og blíðskapar akkúrat engin. Að mínu viti er það þó grundvallar misskilningur rappara að rugla saman ferðalaginu og áfangastaðnum—en eins og allt skynugt fólk veit þá helgast þýðing hins síðarnefnda af gæðum hins fyrrnefnda. Þetta er eins og Drake sagði þarna um daginn (amma mína elskar Drake): Þetta snýst ekki um Rómaborg—þetta snýst um forsendur ferðalagsins. Rapparar njóta ástar eins og vitgranni túristinn naut Rómar: undir formerkjum sýndarmennskunnar.“

„Hvað varð um rómantíkina? Stefnumótið? Forleikinn!?“ 

Eins og oft áður fannst mér þetta býsna góður punktur hjá ömmu minni. Hún starfaði lengst af sem bókmenntagagnrýnandi hjá virtu þýsku dagblaði og þó svo að hún hafi almennt mætur á góðri rapptónlist—þolir hún ekki það skaðlega hugsunarleysi sem virðist, að hennar mati, gegnsýra flest rapp í dag. Hefur það því, oft og tíðum, fallið í mínar hendur að verja menninguna (sem ég elska) fyrir skarpskyggni ömmu minnar, þ.e.a.s. að tefla sniðugum mótrökum gegn aðfinnslum hennar.

Því sagði ég: „En það er nú ekki allir rapparar svo grunnhyggnir. Sjáðu bara lagið The Light eftir Ty Dolla $ign og Jeremih sem kom út í daginn. Þar eru tónlistarmennirnir tveir talsmenn lengri vegarins (sjá hér að ofan); talsmenn rómantíkur og dýpi. Textinn er svohljóðandi, amma mín: 

Stundum kynlíf—en ekki án forleiks.
—ekki án fyrsta stefnumótsins.
—ekki án þess að ég fylgi þér til dyra
og velti því fyrir mér, í millitíðinni, 
hvort að ástarþrá mín verði að veruleika.“ 

*Lagið The Light verður að finna á plötunni Mih Ty sem Ty Dolla $ign hyggst gefa út í sumar.

Orð: SLC