Þakkar Íslendingum góðsemina í bandarískum fréttatíma

Fréttir

Í fréttatíma WTAE-TV Pittsburgh í gær (17. maí) var viðtal við Bandaríkjakonuna Ashley Fusco birt (sjá hér fyrir ofan) en fyrir tveimur mánuðum síðan ferðaðist Fusco til Íslands og á meðan dvöl hennar stóð týndi hún hálsmeni sem hafði mikið gildi fyrir hana persónulega; fyrir níu árum síðan, þegar Fusco var í háskóla, missti hún báða foreldra sína í bílslysi og var hálsmenið til minningar um þau (för foreldra Ashley var þá heitið á íþróttaviðburð þar sem Ashley átti að koma fram sem klappstýra). 

„Ég hafði ekki tekið hálsmenið af mér frá því að slysið átti sér stað, fyrir níu og hálfu ári síðan.“

– Ashley Fusco

Ashley Fusco var fullviss um að hún hefði glatað hálsmeninu fyrir fullt og allt á Íslandi – en allt kom fyrir ekki. 

Síðastliðinn mánudag (15. maí) fékk Fusco skilaboð frá Íslendingi sem sagðist hafa fundið hálsmenið. Forsagan var sú að Hera Björk Þormóðsdóttir hafði þá áður birt tvær myndir af hálsmeninu á Facebook síðu sinni og auglýst eftir eigandanum:

„Hæhæ, ég er að vinna í túristabúð í Reykjavík á Laugaveginum sem heitir I don't speak Icelandic. Við fundum þetta hálsmen í búðinni og virðist þetta vera kærkominn gripur. Þess vegna langar mig að reyna á mátt facebook og aðra samfélagsmiðla og reyna að finna eigandann. Endilega deilið þessu!“

– Hera Björk Þormóðsdóttir

Í kjölfarið deildu tæplega tvö þúsund manns myndinni og bar leitin að lokum árángur. Að sögn Fusco hafði ónefnd íslensk kona leitað eftir dánardögum foreldra hennar á Google og með því tekist að hafa uppi á henni. Neitaði umrædd kona síðan að gefa upp heimilisfang sitt með það fyrir stafni að afþakka fundarlaun.

Endaði fréttaritarinn Mike Clark fréttina með eftirfarandi orðum:

„Ashley Fusco þakkar Íslendingum góðsemina og heiðarleikann. Konan sem fann hálsmenið segist ekki vilja gefa upp heimilisfang sitt vegna þess að hún vill ekki fundarlaun; hin sanna umbun sé að vita að þessi dýrmæti minjagripur muni senn hanga frá hálsi eigandans.“

– Mike Clark (fréttamaður)