„Tókst aldrei að semja neitt af viti fyrr en ég varð edrú.“—Saga Nazari

SKE: Á meðan hann lifði lét franski heimspekingurinn Voltaire þau ummæli falla að „Eyrað væri breiðgata sem lægi að hjartanu.“ Eru þetta orð að sönnu—en orð, engu að síður, sem krefjast sögulegs samhengis; Voltaire var uppi fyrir daga internetsins, áður en breiðgata eyrans skrapp saman, mjókkaði svo um munaði, og úr varð, að margra mati, magurt húsasund: „Heimurinn er uppfullur af lélegri tónlist—og loftið titrar tómum tónum,“ sagði einhver rallhálfur bölsýnismaður á barnum um daginnn. AMEN: Rapparar muldra og skvaldra og ólagvísir söngvarar reyna að bjarga virðingunni með fulltingi Autotune. En hvað sem því líður breikkar vegurinn endrum og sinnum. Nýverið kynntist SKE til dæmis tónlist söngkonunnar Sögu Ýr Nazari en rödd hennar býr óneitanlega yfir sérstökum þokka. SKE heyrði í Sögu og spurði hana nánar út í tónlistina, lífið og ýmislegt annað. 

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Saga Ýr Nazari

SKE: Sæl, Saga. Hvað segirðu gott?

Saga: Heyrðu, lífið leikur við mann. Ég get ekki kvartað.

SKE: Hver er Saga Nazari?

Saga: Hef ekki hugmynd—er enn að reyna að komast að því sjálf. 

SKE: Þú hefur verið virk á Soundcloud undanfarið og sent frá þér lögin Vatn og Don't Gotta Be Real meðal annars. Hvenær byrjaðirðu að semja tónlist?

SKE: Ég hef samið ljóð frá því að ég var krakki—ávallt á ensku—svo þegar ég varð eldri kynntist ég vinahóp sem var mikið fyrir að rappa og freestyle-a. Þó svo að stíllinn minn og þeirra væri allt öðruvísi fékk ég samt sem áður innblástur fyrir því að lífga ljóðin mín við. Ég náði þó aldrei að semja neitt af viti fyrr en ég varð edrú, að undanskildum tveimur lögum sem ég samdi áður en ég fór í meðferð. Svo að ég myndi segja eitt ár.


SKE: Hvernig kom samstarf ykkar Dreymins til?

Saga: Maðurinn sem hljóðritaði fyrstu lögin mín hafði samband við mig eftir að ég útskrifaðist úr meðferð og vildi kynna mér fyrir ungum og hæfileikaríkum strák, sem hann er! Okkur hefur komið mjög vel saman síðan. 

SKE: Þú semur bæði á ensku og íslensku. Hvers vegna?

Saga: Ég hef yfirleitt alltaf skrifað á ensku og ég er nýlega byrjuð að semja og hlusta á íslenskt rapp. Ég vil geta gert bæði.

SKE: Er plata eða mixteip í vændum?

Saga: Það er ekkert staðfest eins og er. Það eina sem ég get sagt að svo stöddu er að það eru fleiri lög á leiðinni sem verða gefin út með viku millibili.

SKE: Hvaða tónlistarkonur/menn eru í uppáhaldi um þessar mundir?

Saga: Ég lít mikið upp til J.Cole, Kehlani, Spooky Black og Joyner Lucas.

SKE: Hver er sagan á bakvið edrúmennskuna?

Saga: Ég var í sjö ára stigversnandi neyslu en í fyrsta sinn núna hef ég verið áfengis- og vímuefnalaus í rúmlega átta mánuði.

SKE: Hvað finnst þér um íslensku Hip Hop senuna?

Saga: Mér finnst hún mjög töff. Það er gaman að sjá hvað hún er að vaxa hratt hérna á klakanum og ég fýla hversu margir mismunandi stílar eru við lýði.

SKE: Eru einhverjir aðilar innan senunnar sem þér langar að vinna með?

Saga: Úff, já algjörlega. Ég væri ekkert á móti því að vinna með AUÐI þó svo hann sé kanski ekki Hip Hop. Annars væri ég til að vinna með Black Pox, Loga Pedro, Sturlu Atlas og Aroni Can. 

SKE: Ef þú yrðir að eyða 1 milljón ISK fyrir miðnætti í kvöld—hvernig myndirðu verja krónunum?

Saga: Ég myndi hiklaust leggja allan peninginn inn á mömmu. 

SKE: Uppáhalds tilvísun?

Saga: "Kindness is the language that the deaf can hear and the blind can see."—Mark Twain

SKE: Helsta lífsregla?

Saga: Það sem aðrir hugsa um þig kemur þér einfaldlega ekki við.

SKE: Sú bók sem hefur haft hvað mestu áhrif á þig?

Saga: Nautið eftir Stefán Mána.

SKE: Eitthvað að lokum?

Saga: Ég er spennt fyrir tímanum framundan; bæði fyrir því að fá að lifa lífinu á lífsins forsendum og að finna sjálfan mig í tónlistinni.

(SKE þakkar Sögu kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til þess að fylgjast með tónlistinni hennar á Soundcloud.)