Úlfur Úlfur næsti gestur Kronik (6. maí)

Fréttir

Aðeins eru rúmir sex mánuðir liðnir frá því að útvarpsþátturinn Kronik hóf göngu sína á ný á X-inu 977 (þátturinn er í loftinu sérhvert laugardagskvöld á milli 17:00 og 19:00.) 

Þrátt fyrir það hefur fjöldi góðra gesta þegar kíkt við í hljóðverið til Benna og Robba og má þar helst nefna tónlistarmenn á borð við Emmsjé Gauta, Aron Can, Sturla Atlas, XXX Rottweiler, Reykjavíkurdætur, Herra Hnetusmjör, Alviu Islandia og fleiri. 

Næstkomandi laugardag (6. maí) búast umsjónarmenn þáttarins við akfeitum
þætti en gestir þáttarins verða þeir Arnar Freyr Frostason og Helgi Sæmundur Guðmundsson, betur þekktir sem tvíeykið Úlfur Úlfur. 

Tilefni heimsóknarinnar er útgáfa þriðju breiðskífu sveitarinnar Hefnið okkar sem kom út síðastliðinn 28. apríl (Úlfur Úlfur fagnaði jafnframt útgáfu plötunnar í Lucky Records sama dag). Þar á undan hafði tvíeykið komið aðdáendum sínum á óvart með því að gefa út þrjú ný myndbönd á einu bretti (25. apríl). Um ræðir myndbönd við lögin Mávar, Bróðir og Geimvera (sjá hér fyrir neðan). Einnig opnaði hljómsveitin nýja vefsíðu sama dag. 

Útvarpsþátturinn Kronik hóf göngu sína árið 1993; sumir vilja jafnvel meina að þátturinn hafi rutt veginn fyrir íslensku Hip-Hop senunni.

Áhugasamir geta nálgast myndbönd frá þættinum á Youtube rás Kronik (Kronik Radio).