„Upphafning á dópneyslu frekar óspennandi dæmi.“ – SKE spjallar við Unga Besta og Milljón

Viðtöl

(Einhvern tímann lét ónefndur spekingur þau ummæli falla að „Þeir sem geta ekki sungið, rappa, og þeir sem geta ekki rappað—muldra.“ Eiga þessi ummæli illa við lagið "Drottinn Minn Dýri," sem tvíeykið Ungi Besti & Milljón gaf út á Youtube fyrir stuttu, en í textum sínum er rapparinn Ungi Besti í senn skýrmæltur, hnyttinn og gagnorður. Lagið geymir margar mjög eftirminnilegar línur, sem hafa grafið sig í gegnum teppt eyrnargöng undirritaðs og tekið sér aðsetur inni í heilabúi hans: „Og það er af því að ég nota bara taupoka / plast er fyrir dauðvona / plast er fyrir aumingja /.“ Fyrirvaralaust, í gegnum daginn, dúkka línur sem þessar upp í huga undirritaðs og fara hring eftir hring eftir hring—líkt og úlnliði rapparans í laginu sjálfu ... Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í Unga Besta & Milljón og spurði þá nánar út í lagið, tónlistina og ýmislegt annað.

(Viðtal: RTH
Viðmælendur: Ungi Besti & Milljón)

SKE: Já, góðan daginn. Hvað segið þið gott?

Ungi Besti: Ég segi töluvert gott.

Milljón: Ég er mjög góður.

SKE: Hverjir eru Ungi Besti og Milljón?

Ungi Besti: Við erum báðir fyrrum meðlimir þungarokkshljómsveitarinnar In The Company of Men sem var og hét—megi hún hvíla í friði—þannig að við erum búnir að vera að semja tónlist saman í svona sex ár, en aldrei í þessu samhengi. Ég var á trommum og Milljón spilaði á gítar og söng, en nú er ég að syngja og Milljón að gera taktana. Þannig að þetta er allt önnur stefna, allt annar fílingur.

SKE: Lagið ykkar Drottinn Minn Dýri er í miklu uppáhaldi hjá SKE. Hvernig kom lagið til?

Milljón: Ég bý til alls konar tónlist  og hef verið að gera raftónlist og takta síðan ég var krakkaskítur en aldrei fundist það nógu gott til að gefa út. Síðasta haust bjó ég í Aþenu og hafði ótrúlega mikinn tíma einn með sjálfum mér þar sem að ég var í einskonar sjálfskipaðri útlegð svo að í nokkrar vikur eyddi ég mörgum tímum á dag að gera takta og fullkomna tæknina. Ég gaf út lagið Homage síðasta nóvember sem er það fyrsta sem ég gef út sem Milljón. 

Ég og Ungi Besti höfum lengi talað um að gera lag saman því að hann er alltaf að semja ógeðslega fyndna og góða rapptexta en aldrei fundið 'rétta' taktinn, þangað til að ég drullaðist til að pródusera Drottinn Minn Dýri.

SKE: Er Ungi Besti trúrækinn maður – eða staðfastur heiðingi?

Ungi Besti: Tja, ég er óskírður, ófermdur og er í Ásatrúarfélaginu sem er, jú, frekar heiðingjalegt. En mér finnst bara lúmskt gaman að sniðganga stofnanir eins og Þjóðkirkjuna og Mjólkursamsöluna. Það er góð skemmtun. Annars hef ég bara gaman af gömlum orðatiltækjum orðræðu sem maður heyrir minna af í dag. Drottinn minn dýri! og almáttugur! eru einmitt bara eitt af fjölmörgum upphrópunum sem mig langar að halda á lífi.

SKE: Uppáhalds línan okkar í laginu er: 

"Ég er svo góður í að fæðast /
Tók bara eina tilraun:
Kom út og fór að væla /"
En hvaða textabrot eru í uppáhaldi 
hjá Unga Besta?

Ungi Besti: Hmm ... Mér finnst mjög gaman að tala um úlnliðina mína. Það gerist tvisvar sinnum í laginu og það er hlaðið meiri meiningu en má virðast. Fyrra skiptið segi ég „Sjáðu mig, ég er fljúgandi til Parísar" sem leiðir yfir í „Sjáðu úlnliðina á mér fara í hringi ... eins og Kalita."

Sko, þetta mun örugglega hljóma eins og útskýring inni á Rap Genius, en þessi lína setur í rauninni upp stöðuna eins og hún er í dag þar sem ég er búinn að spara nógu mikið til að geta flutt til Parísar, slakað á og gert mér gómsætt kaffi, en Kalita er sem sagt japanskt fyrirtæki sem framleiðir búnað fyrir handuppáhellt kaffi.

Seinna skiptið hefur reyndar enga dýpri merkinu—mér finnst bara fyndið að ímynda mér það: „Ég sé ekki á úrið mitt því úlnliðurinn hann fer hring eftir hring eftir hring eftir hring ..."

SKE: Laginu mætti lýsa sem minimalísku-vegan rappi ("eyði ekki pening í drasl" / "...um að ég borði vegan"). Eru þessar tvær hugsjónastefnur mikið hjartans mál og ef svo er - hvers vegna?

Ungi Besti: Ég vil geta meint það sem ég segi í textunum mínum og þess vegna eru þeir eins heiðarlegir og ég get haft þá, með nægilegt svigrúm til að grínast, ríma og koma hugmyndum til skila.

Sjálfur myndi ég ekki nota orðin minimalismiveganismi. 

Hvað minimalisma varðar, þá er það sín eigin listastefna, en ég skil vel hvað þú meinar því. Það sem ég er að predika er að vera neyslugrannur, nægjusamur og að fatta hvað við höfum það flest gott nú þegar—og það er mér mikið hjartans mál.

Hvað veganisma varðar, þá er svona 95% af því sem ég borða dagsdaglega vegan, en ég er samt ekki vegan. Það sem er í fyrrúmi hjá mér er að vera eins umhverfisvænn og ég get og að láta gott af mér leiða og mér finnst það bara ekki svo einfalt að maður geti sett samasemmerki milli þess að vera vegan og þess að vera umhverfisvænn í öllum tilfellum.

En sem betur fer er flestur vegan matur ódýr, hollur, góður og umhverfisvænn, auk þess að þyrma dýrunum—sem er allt mega næs.

SKE: Uppáhalds bók? bækur?

Ungi Besti: Það er erfitt að nefna eftirlætisbók, en ég er aðdáandi Andra Snæs og ég er að lesa Codex 1962 seríuna eftir Sjón þessa dagana—mjög hrifinn af þeim bókum. Síðan mæli ég með The Three-Body Problem eftir Liu Cixin. Það er ljómandi gott sci-fi.

Milljón: Bókin góða náttúrulega.

SKE: Er útgáfa í vændum? Tónleikar?

Milljón: Við erum ekki með neina tónleika planaða á næstunni. Við búum í sitt hvoru landinu svo að við ætlum bara að vinna í meira efni í gegnum netið.

SKE: Það lag eða listakona/maður sem hefur haft hvað mestu áhrif á ykkur?

Ungi Besti: Það er rosa strembið fyrir mig að reyna að hugsa tilbaka og finna út hverjir hafa virkilega mótað mig, en Tove Jansson, Roald Dahl, Princess Nokia og Gaspar Noé eru klárlega á þeim lista.

Milljón: Hvað varðar taktagerð þá eru Suicideyear og Home líklega mestu áhrifavaldanir hjá mér. Það sem Bngrboy hefur verið að gera hefur eflaust haft einhver áhrif á mig.

SKE: Hvað finnst ykkur um íslensku rappsenuna? Hvað fílið þig - og hvað fílið þið ekki?

Ungi Besti: Mér finnst íslenska rappsenan alveg einstakt fyrirbæri. Hún er rosalega virk og það er mikið af hæfileikafólki að gera frumlega hluti. Það eru margir færir rapparar að gera þetta á hnyttinn, grípandi, og skemmtilegan hátt og samt í íslensku samhengi. Það er það sem ég fíla. 

Það sem ég fíla hins vegar ekki eru krakkar að tala um tíkur og peningastafla og skartgripi—dót sem á sér enga stoð í íslenskum veruleika. Svo búa þau bara heima hjá foreldrum þínum í Kópavoginum og eiga örugglega afa og ömmu sem þykja rosa vænt um þau. Ekki apa bara upp eftir Bandaríkjamönnum. Sérstaklega ekki þessi efnisatriði; það er líka kjánalegt þegar Bandaríkjamenn tala um þetta drasl.

Ég veit að auðvitað hafa flestir gert lög sem þeim finnst kjánaleg síðar meir, en þessi lög eru að koma út enn þann daginn í dag, og það sem mér finnst furðulegast af öllu er að þau eru meira að segja vinsæl enn þann daginn í dag.

Milljón: Feitur spegill á Unga Besta. Rappsenan á Íslandi er náttúrulega á alveg öðru level-i. Margir að gera ótrúlega kúl og spennandi hluti eins og t.d. Cyber, Lord Pusswhip, Countess Malaise og síðan er nýja efnið hjá Krabba Mane algjör snilld, bara til að nefna nokkur dæmi.

Ef ég á að nefna einhvern löst þá finnst mér persónulega upphafning á dópneyslu vera frekar óspennandi dæmi. Það er reyndar alveg kúl að fólk er byrjað að vera meira berskjaldað í textagerðinni sinni, rappandi kannski um hvað því líður illa og ég ætla ekkert að fara að væla yfir því að listamenn séu að skrifa texta um sinn eigin raunveruleika en mér finnst bara kjánalegt að láta eins og læknadóp sé einhver snilld. Ég hata líka spýtt.

SKE: Eitthvað að lokum?

Ungi Besti: Já. Ég veit að þetta er kannski ekki alveg staðurinn til að nefna það, en ég er alltaf að sjá stafsetningarvillur í greinum inná ruv.is og mér finnst það frekar leiðinlegt. Takk fyrir.

(SKE þakkar Unga Besta og Milljon kærlega fyrir spjallið og bíður í ofvæni eftir nýju efni.)